Gríðarhátt og hækkandi eldsneytisverð

http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa.jpg
Bensínverð á Íslandi hefur aldrei áður verið jafn hátt í krónum talið og það er nú að verða eftir eftir hækkun gærdagsins hjá Esso. Þegar þetta er ritað eru Olís og Skeljungur að feta í fótspor Esso frá í gær og kostar bensínlítrinn í sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð nú víðast hvar 122,80 og dísilolían kostar 117,90. Hið geypiháa eldsneytisverð hefur mikil áhrif á allt samfélagið eins og vænta má og því fyllilega eðlilegt að ríkisstjórnin sem fer með hagstjórnarvaldið komi til móts við almenning.

Áhrif hins háa og síhækkandi eldsneytisverðs eru í stuttu máli þau að hækkun hefur þau áhrif að vísitala neysluverðs hækkar og hærri neysluverðsvísitala þýðir m.a. að verðtryggðar skuldir heimilanna hækka, afborganir þyngjast og afkoman verður erfiðari.

Vegna þess hve heimsmarkaðsverð er hátt nú og vegna viðbótaráhrifa fallandi gengis íslensku krónunnar er kostnaðarverð pr. lítra af eldsneyti þessa dagana orðið svipað og þegar það var sem allra hæst í kjölfar fellibylsins Katrínar og hamfara af hans völdum í Mexíkóflóanum. Þá safnaði FÍB undirskriftum um 15 þúsund Íslendinga til stuðnings áskorun á hendur ríkisstjórn Íslands um að milda áhrif hins háa heimsmarkaðsverðs með því að lækka ríkisálögur á eldsneyti. Áskorun FÍB ásamt undirskriftunum var komið á framfæri við stjórnvöld sem tóku hvorutveggja fálega og höfnuðu því að lækka ríkisálögurnar.

Í vetur var lagt fram þingmannafrumvarp á alþingi um tímabundnar lækkanir á álögum á eldsneyti til að draga úr neikvæðum áhrifum hás eldsneytisverðs á fjárhag heimilanna sem verða óhjákvæmilega þegar verðlag og vísitala neysluverðs hækkar á víxl. Þá hefur FÍB undanfarið ítrekað vakið athygli á ábyrgð stjórnvalda í efnahagsstjórninni og gerir þan enn nú þegar kostnaðarverð á bílaeldsneyti er komið um og yfir 40 kr á lítra. FÍB ítrekar því kröfuna á hendur stjórnvalda sem á sínum tíma var studd með undirskriftum þúsunda Íslendinga, um að lækka nú álögur á eldsneyti.

Í því sambandi mættu stjórnvöld hafa í huga að þessi nýjasta bensínhækkun í gær og dag hækkar reksturskosnað bensínbíla landsmanna um hvorki meira né minna en 3.350 milljónir króna – 3,35 milljarða á ársgrundvelli miðað við meðalverð alls ársins 2005. Miðað við meðalverð ársins 2005 mun ríkið því ná til sín minnst 660 milljónum króna auknum virðisaukaskattstekjum af eldsneyti á þessu ári heldur en á því síðasta síðasta miðað við sjálfsafgreiðsluverð á þjónustustöð.

Loks skal hér minnt á að í dag eru um 67 kr af verði hvers lítra af bensíni skattar í ríkissjóð og bensínverð hér á landi er með því allra hæsta í heiminum.