Gríðarleg hækkun bílastæðagjalda við Leifsstöð

Verðskrá Icepark, rekstraraðila lagtímabílastæða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hækkaði hressilega 15. apríl sl.  Gjald fyrir 10 daga afnot af langtímabílastæði er nú 7.400 kr., en var áður kr. 5.010 kr. fyrir 10 daga (skv. upplýsingum starfsmanns Icepark).  Gjaldið hefur því verið hækkað um tæplega 50% á einu bretti!   Það er ljóst að vertíð ferðalaga til útlanda er að hefjast og líklegt að margir munu ætla að geyma bíla sína á umræddum bílastæðum.  Það er því ástæða til að vekja athygli bíleigenda á ósvífinni hækkun Icepark á leigu fyrir langtímabílastæði og öðrum valkostum í þessu sambandi.

Fréttavefur FÍB setti sig í samband við Icepark ehf nú í morgun til að kalla eftir skýringum fyrirtækisins á þessari miklu hækkun. Sá sem fyrir svörum varð vildi engar upplýsingar gefa um forsendur hækkunarinnar. Hann neitaði ennfremur að gefa upp hver hann sjálfur væri og hvaða stöðu hann gegndi innan fyrirtækisins og þaðan af síður hver væri framkvæmdastjóri eða forstjóri og hvar og hvernig hægt væri að ná í hann en endurtók í sífellu að við gætum sent tölvupóst á icepark@icepark.is. Síðan sleit þessi talsmaður Icepark ehf samtalinu með því að leggja á.

Samkvæmt heimildum okkar er Icepark í eigu öryggisfyrirtækisins Nortek. Auk þess að reka bílastæðin við Leifsstöð, Keflavíkurflugvelli sjá starfsmenn Icepark um að safna saman og halda utan um farangursvagna farþega sem um Leifsstöð fara.

Upphaflega annaðist Securitas rekstur gjaldskyldu bílastæðanna umhverfis Leifsstöð en Icepark mun hafa hreppt það hnoss fyrir fáum árum eftir að útboð hafði farið fram. Þær tekjur sem innheimtast skiptast síðan milli flugstöðvarinnar sjálfrar og rekstraraðila stæðanna.