Gríðarlegur fjöldi bifreiða með óvirkan mengunarvarnarbúnað

Loftgæði í Reykjavík hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni undanfarið þar sem hátt magn af köfnunarefnisdíoxíð (NOx) hefur mælst við helstu umferðagötur borgarinnar og er útblástur dísilbifreiða þar stærsti áhrifaþátturinn.

Síðustu tvo áratugi hefur mikill árangur náðst hjá bílaframleiðendum við að draga úr útblæstri skaðlegra efna eins og NO2 og sótagna. Allar nýjar bifreiðar sem eru fluttar inn og seldar hér á landi sem og annarsstaðar í Evrópu þurfa að uppfylla ströng skilyrði varðandi mengunarvarnarbúnað til að lágmarka skaðlegan útblástur.

Mengunarvarnarbúnaður nýrra bíla er misjafn eftir orkugjöfum en í grunninn eru þetta eitt til þrjú kerfi sem eru…

  • EGR-ventill (e. exhaust gas recircu-lation) er hluti af mikilvægum mengunarvarnarbúnaði í bensín- og dísilbílum sem dregur úr skaðsemi útblásturs. EGR-búnaðurinn heldur útlosun köfnunarefnisdíoxíðs í lágmarki með því senda útblástursloftið aftur inn í brunaferli vélarinnar ef gildin eru há.
  • Sótagnasíur (DPF) getur fangað frá 30% upp í 95% af skaðlegum sótögnum í útblæstri. Með bestu sótagnasíunum er hægt að draga útlosun sótagna niður í 0,001 gramm á kílómetra eða neðar.
  • AdBlueTM (DEF) er dísilútblástursvökvi sem dregur úr köfnunarefnisoxíð (NOx) útblæstri í dísilvélum. Þetta ferli getur dregið úr skaðsemi NOx um 80-90%
  • Hér má finna ágætis skýringarmyndband um virkni mengunarvarnarbúnaðar í dísilbifreiðum.

Um mitt ár 2018 vakti FÍB athygli á að nokkur fyrirtæki hér á landi væru að bjóða upp á þjónustu þar sem vélatölvur voru endurforritaðar meðal annars til að slökkva á mengunarvarnarbúnaði bílsins. Þá er bíleigendum um leið lofað auknu afli og minni eldsneytiseyðslu. Samhliða fréttaflutning FÍB var óskað eftir svörum frá Samgöngustofu sem þá sagði málið vera til skoðunar.

Nokkrum mánuðum síðar tók fréttaskýringarþátturinn Spegillinn málið til umfjöllunar þar sem meðal annars var rætt við Gísla Rúnar Kristinsson eiganda Bílaforritunar ehf. sem sagði óvirkjun á mengunarvarnabúnaði vera eitt af þjónustuframboðum fyrirtækisins. Á þeim tíma þegar viðtalið er tekið í byrjun árs 2019 þá hafði Bílaforritun forritað 1005 fólksbifreiðar, 51 trukk og 7 rútur. Nú fjórum árum síðar er þessi tala komin upp í 5459 fólksbíla, 420 trukka og 75 rútur en að auki er umtalsverður fjöldi af öðrum tækjum eins og fyrir landbúnað.

Í febrúar 2022 áréttaði Samgöngustofa á heimasíðu sinni að óheimilt væri að eiga við mengunarvarnarbúnað ökutækja. Er þar vísað til 69 gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og í 18 gr. 16. liðar í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. 

Óbreytt staða og ólöglegum bílum fjölgar

Í dag má áætla að fjöldi bifreiða í umferðinni með óvirkan mengunarvarnarbúnað telji í hundruðum ef ekki þúsundum og útblástur skaðlegra efna á hverri bifreið allt að sex- til áttfaldur sérstaklega þegar litið er til dísilbifreiða.

Fjöldi fyrirtækja sem bjóða upp á viðkomandi þjónustu hefur margfaldast og auglýsa í blöðum og á samfélagsmiðlum án nokkurrar hindrunar.

Í svörum Samgöngustofu kom fram að enn væri verið að skoða málið og innleiðing á OBD aflestri í skoðunarstöðvum væri í vinnslu. Samkvæmt nýútkomnir skoðunarhandbók sem tekur gildi 1. mars 2023 þá eru ekki framkvæmdar sérstaka mælingar á NOx útblæstri bifreiða en stefnt er að úrbótum í byrjun næsta árs 2024. Það verður því viðbúið að töluverður fjöldi bifreiða mun ekki standast aðalskoðun fyrr en mengunarvarnarbúnaður bílsins hefur verið virkjaður aftur.