Gróðurhúsaáhrif meiri af nautakjöti en bifreiðaakstri

Ýmsir þreytast seint á því að býsnast yfir meintum skaðlegum umhverfisáhrifum bílanna og þeim miklu áhrifum sem þeir eru sagðir hafa á hlýnun á jörðinni. En nú hafa hollenskir og austurrískir vísindamenn tekið saman rauntölur um útblástur gróðurhúsalofttegunda frá kjötframleiðslu og borið saman við útblástur frá bílaumferð og niðurstöðurnar eru afar athyglisverðar og í stuttu máli þær að nautpeningurinn er verri umhverfisskaðvaldur en bíllinn.

Hollensku og austurrísku vísindamennirnir hafa tekið saman tölur um hversu mikill CO2 útblástur kemur frá hverju framleiddu kílói af nautakjöti og niðurstöðurnar eru verulega ógnvekjandi, séu tölurnar  á annað borð réttar og sömuleiðis kenningin um að hlýnun jarðar sé beintengd magni þess koltvísýrings sem kemst út í andrúmsloftið vegna athafna mannkynsins.

Koltvísýringsútblástur sem til verður við framleiðslu hvers kílós af nautakjöti er mjög mismikill eftir löndum. Frá hverju kílói sem framleitt er í Brasilíu koma 335 kíló af CO2. Það er jafnmikið og kemur frá meðalstórum bíl í hvorki meira né minna en 1.600 kílómetra akstri. Í Hollandi er þetta miklu minna eða einungis 22 kíló sem svarar til 110 km aksturs fyrrnefnds meðalbíls.

Misjafnt er eftir kjöttegundum hversu mikil CO2 útloftun á sér stað pr. kíló. Nautaketið er greinilega verst að þessu leyti en kjúklingurinn í Hollandi bestur – þ.e.a.s. gefur frá sér minnst eða 6,2 kíló af CO2 á hvert kjötkíló sem tilbúið er til matreiðslu. Það svarar til 30 kílómetra aksturs meðalbílsins.

Nánar má fræðast um þesssa rannsókn með því að lesa umrædda skýrslu vínsindamannanna. Hún heitir -Including CO2 implications of land occupation in LCAs—method and example for livestock products.