Gult aðalljós á mótorhjólum

Þeir sem muna nokkur ár eða áratugi aftur í tímann minnast efalaust þess að á árum áður voru margir franskir bíla með gul aðalljós. Gulu ljósin voru talin lýsa ökumönnum betur í þoku og jafnvel skafrenningi. Hvort sem það er svo eða ekki þá hefur ný rannsókn sænsku vegtæknistofnunarinnar sýnt að gul aðalljós á mótorhjólum auka öryggi mótorhjólafólksins í umferðinni umtalsvert. Þau aðgreina nefnilega hjólin frá bílunum í umferðinni, sem allir eru með hvít ljós.

Á Íslandi eru þúsundir mótorhjóla á skrá og einmitt núna á vordögum eru þau að birtast í umferðinni í sívaxandi mæli. Óvörðu mótorhjólafólkinu er mun hættara við að slasast eða láta lífið ef eitthvað fer úrskeiðis, heldur en þeim sem ferðast í bílum í umferðinni og eru varðir inni í honum. Því skiptir miklu máli að allir ökutækjastjórnendur hafi hugann við aksturinn og umferðina í kring um sig. Bílstjórarnir minnist þess að mótorhjólafólkið er óvarið og af því það er fyrirferðarminna en bíll, sýnist það vera lengra burtu en það í rauninni er og mótorhjólafólkið geri sér grein fyrir þessu og hafi alltaf á sér andvara. Þetta myndband Samgöngustofu sýnir þessa hluti ágætlega.

Árið 2013 lést einn ökumaður þungs bifhjóls í umferðarslysi, 24 slösuðust alvarlega og 26 minna. Langflestir þeirra voru 25-64 ára að aldri. Í Svíþjóð létust 31 ökumaður mótorhjóla árið 2012. Um það bil helmingur þeirra fórst í árekstrum við önnur ökutæki. Christopher Patten sem rannsakar slys hjá VTI í Svíþjóð segir eina af ástæðum mótorhjólaslysanna sé að rekja til þess hve erfitt það sé fyrir aðra vegfarendur að sjá mótorhjólin í umferðinni og greina þau frá annarri umferð, greina hvar þau eru stödd og hver hraði þeirra er.

Markmið rannsóknarinnar var að greina það hvort mögulegt væri að gera mótorhjólin sýnilegri í umferðinni með því að setja gult gler á framljós þeirra. Niðurstaðan sé sú að svo er í vissum tilfellum. Það sé þó þannig að ekki hafi allar hugsanlegar aðstæður verið prófaðar, svo sem fjölmörg birtu-og veðurskilyrði og umferðaraðstæður. Því sé varasamt að alhæfa í þessu efni.