Hægist á umferð á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í október jókst um rúm fjögur prósent, það er helmingi minna en umferðin jókst í sama mánuði í fyrra en er þó töluvert yfir meðaltalsaukningu. Útlit er fyrir að umferðin í ár á höfuðborgarsvæðinu aukist um þrjú prósent.

Umferðin í nýliðnum mánuði, á höfuðborgarsvæðinu, jókst um 4,1% miðað við sama mánuð á síðasta ári, ef marka má 3 lykil mælisnið Vegagerðarinnar. Þessi aukning er helmingi minni en á síðasta ári en heldur meiri en Vegagerðin gerði ráð fyrir.

Mest jókst umferðin í mælisniðum á Reykjanesbraut og Vesturlandsvegi eða um 4,2% en lítið eitt minna á Hafnarfjarðarvegi eða um 3,8%.

Nú hefur umferðin aukist að jafnaði um 3,2% í hverjum október mánuði frá árinu 2005. Þessi aukning nú er því vel yfir því meðaltali.

Nú hefur umferðin aukist um 2,9% miðað við það sem af er ári ef miðað er við sama tímabil á síðasta ári. Þessi aukning er tæplega þrefalt minni en átti sér stað á sama tíma fyrir ári síðan og það þarf að fara aftur til ársins 2013 til að finna svipað litla aukningu miðað við árstíma.

Umferð eftir vikudögum
Í nýliðnum mánuði var, eins og svo oft áður, mest ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum. Umferðin, í nýliðnum mánuði, jókst mest á þriðjudögum eða um 5,7% og minnst á laugardögum eða um 0,1% ef miðað er við október á síðasta ári.Horfur breytast lítið frá síðasta mánuði og áfram er gert ráð fyrir um 3% aukningu í lykilsniðunum þremur.