Hægri umferð í 40 ár

http://www.fib.is/myndir/H-merki.jpg

Í gærmorgun, þann 27. maí, voru 40 ár síðan breytt var úr vinstri í hægri umferð á Íslandi. Haldið var upp á daginn með sviðsetningu þess þegar fyrsti bíllinn flutti sig af vinstri kanti yfir á þann hægri á Skúlagötunni í Reykjavík.

Í gær eins og fyrir 40 árum var það Valgarð Briem þáverandi formaður framkvæmdanefndar hægri umferðar sem ók bílbílnum af vinstri kanti yfir á þann hægri framanvið gamla Útvarpshúsið á Skúlagötunni. Reyndar dróst þessi sviðsentning um tæpar 15 mínútur vegna þess að lögreglan mætti ekki á tilsettum tíma, kl. 13.00 til að loka götunni þau augnablik sem sviðsetningin tók.

Loks fór svo að gestir sem mættir voru á staðinn tóku sér lögregluvald og lokuðu götunni meðan Valgarð Briem með Kristján Möller samgönguráðherra sér við hlið í gamla Ramblernum, árgerð 1965, skipti um vegarkant eins og hann gerði fyrir 40 árum. Á eftir Ramblernum ók svo Geir H. Haarde forsætisráðherra á bíl nýrra tíma, rauðum Toyota Prius.

Bíllinn sem Valgarð Briem ók á vorið 1968 var reyndar ekki Rambler heldur Dodge. Sá bíll er enn til og er nú verið að vinna við að gera hann upp. Hann var því miður ekki tiltækur fyrir athöfnina í gær og enginn annar eins bíll fannst sem komið gæti í hans stað.

Að sviðsetningunni á Skúlagötunni lokinni var haldin hátíðarsamkoma í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Þar lýsti Valgarð Briem m.a. starfi framkvæmdanefndarinnar um hægri umferð og sagði að hefðu nefndarmenn haft hugmyndarflug fyrir tæpri hálfri öld til að semja um árangurstengd laun eins og nú tíðkast, þá væru þeir að líkindum auðugir menn í dag.

Hér á eftir má sjá nokkrar myndir sem teknar voru við sviðsetninguna í gær auk mynda frá „kantskiptunum“ fyrir 40 árum. Á einni þeirra má sjá Dodge bílinn sem Valgarð Briem ók yfir miðlínuna á Skúlagötunni þann 26. maí 1968.

http://www.fib.is/myndir/H-dagsmyndasida.jpg