Hægt að fylgjast með umferðarþunga á stofnbrautum borgarinnar

Lifandi gögn um umferðarþunga á helstu stofnbrautum borgarinnar eru nú  aðgengileg í Borgarvefsjá – borgarvefsja.is.   Gögnin eru sótt úr umferðarskynjurum á 90 sekúndna fresti, en þeir eru hluti af miðlægri stýringu umferðarljósa í borginni.  Alls eru 88 teljarar í götum borgarinnar.

„Það tekur 2-3 mínútur fyrir gögnin að birtast, en eftir að kveikt hefur verið á þema uppfærist það sjálfkrafa á 90 sek. fresti,“ útskýrir Jörgen Þormóðsson landfræðingur hjá Landupplýsingakerfum Reykjavíkur (LUKR) sem sér um Borgarvefsjána.

Hægt er að skoða gögnin með tvennum hætti og finnast þau undir valglugga í Borgarvefsjánni. Til hægðarauka eru hér flýtileiðir:

Lifandi gögn um umferðarþunga á helstu stofnbrautum

Undir ‚Skýringar‘ á valstiku Borgarvefsjár má  sjá hvað mismunandi litir þýða. Eins má fá nánari upplýsingar með því að velja ‚Meira‘ takkann og smella síðan á viðkomandi götulegg.

Teljarar fyrir bílaumferð
Hér má sjá staðsetningu teljaranna sjálfra og með því að velja ‚Meira‘ takkann og smella síðan á viðkomandi teljara má sjá meðal annars meðalfjölda bíla á klst. og meðalhraða.

Með þessum nýjungum í Borgarvefsjá er verið að gera hluta af gögnum Reykjavíkurborg aðgengileg almenningi. Ítarlegri gögn eru vissulega notuð til nánari greininga sérfræðinga á umferðarþunga til að bæta umferðarflæðið í borginni.