Hætta á að holur myndist í þessu tíðarfari

Þegar þíða kemur í kjölfar frosts og kulda eða þegar miklir umhleypingar eru eykst hættan á því að holur myndist í bundnu slitlagi, malbiki og klæðingu.  Holur hafa nú þegar verið að koma fram á götum höfuðborgarsvæðisins á síðustu dögum. Eins og dæmin hafa sannað í gegnum tíðina hafa bíl­ar orðið fyr­ir stór­tjóni við að aka ofan í djúp­ar hol­ur. Öku­menn þurfa að gæta varúðar til að skemma ekki bíla sína.

Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að skrif­stofa borg­ar­lands­ins sér um að fylla í brot­hol­ur með köldu viðgerðarmal­biki. Fyllt er í þær hol­ur sem vart verður við í borg­ar­land­inu, eða um ábend­ing­ar þar um. Það er gert allt árið, þótt vet­ur­inn, sér­stak­lega síðla vetr­ar þegar snjóa leys­ir, sé aðal­tím­inn í þessu verk­efni. Sett eru upp  skilti til að vara við hol­um seg­ir í svari skrif­stof­unn­ar við fyr­ir­spurn Morg­un­blaðsins.

Holu­fyll­ing­ar með heitu mal­biki frá mal­bik­un­ar­stöðvum geta ekki haf­ist fyrr en hita­stig úti hækk­ar og vetr­ar­veðri lýk­ur. Vegagerðin og sveitarstjórnir hafa óskað eftir ábendingum frá vegfarendum um hættulegar holur í vegum.

FÍB er með forritið www.vegbot.is þar sem fólk getur skráð holu eða skemmdir í vegi. Sé það gert með snjalltæki á staðnum fylgir staðsetning tilkynningunni. Forritið veit á hverra forræði allar götur og vegir á landinu eru og fer hver tilkynning til rétts veghaldara. Gáttin hefur verið opin í á þriðja ár.

Allir veghaldarar á landinu, sveitarfélög og Vegagerðin, taka beint á móti þessum tilkynningum frá Vegbót, nema Reykjavíkurborg. Borgin vill að fólk skrái þetta sjálft í ábendingargátt borgarinnar. Verði vegfarandi fyrir tjóni á ökutæki  er hægt að koma tilkynningu um það inn á heimasíðu Vegagerðarinnar og fylla þar út tjónstilkynningu með rafrænum hætti: https://www.vegagerdin.is/thjonusta/tilkynning-um-tjon/.