Hættulegt og refsivert að skilja dýr eftir í heitum bílum

Nokkuð hefur borið á því í Svíþjóð í sumar að hundaeigendur skilji hunda sína eftir eina í bílum sínum þegar heitt er í veðri. Að skilja hund eða kött eftir í bíl á heitum degi er hættulegt fyrir dýrið - jafnvel þó það sé aðeins skilið eftir þar í stuttan tíma. Það er brot á lögum um dýraníð og getur varðað fangelsi. Þrátt fyrir þetta hefur sænsku lögreglunni undanfarnar vikur borist tilkynningar frá vegfarendum sem hafa séð hunda lokaða í bílum að því fram kemur hjá sænsku fréttastofunni TT.

Hans Rosengren hjá sænska hundaræktarfélaginu segir í samtali við TT að allir ættu að vita hversu hættulegt það er að skilja hundinn eftir í bílnum undir þessum kringumstæðum. En stöðugt bætast við nýir hundaeigendur, sérstaklega hin síðustu ár, og það eru ekki allir meðvitaðir um hættuna sem þessu fylgir.

Samkvæmt reglugerð sænsku landbúnaðarráðuneytisins er bannað að skilja dýr eftir án eftirlits í bíl ef hitastigið inni í ökutækinu getur farið yfir 25 plús gráður eða undir 5 mínus gráður. Í sumum tifellum getur hitastigið farið upp í 80 gráður samkvæmt mælingu sænska tryggingafélagsins If. Það getur leitt dýrið til dauða ef það er skilið eftir í 20-50 mínútur í heitum bíl. Ef það gerist liggur ábyrgðin alfarið hjá dýraeigandanum.

,,Samkvæmt sænskum lögum er dýraeigendum skylt að setja ekki dýrin í þjáningu og hættu, óháð því hvort það gerist af gáleysi eða óviljandi, telst það glæpur að skilja dýrin eftir í heitum bíl segir,“ Elisabeth Schöning hjá dýralækningadeild Uppsala-borgar.

Lögreglan mælir með því að almenningur láti vita þegar dýrin eru skilin eftir í bílunum. Í neyðartilvikum verði að brjótast inn í bílana svo hægt sé að bjarga dýrunum.