Hæversklegar eyðslutölur

Ný bresk rannsókn leiðir í ljós að bílar eyða að jafnaði um 25% meira eldsneyti en uppgefnar eyðslutölur samkvæmt staðlaðri Evrópumælingu segja. Lúxusbílarnir eru enn eyðslufrekari. Þeir eyða að jafnaði um 30 prósent meira. Það var breska neytendastofnunin ICCT (International Council on Clean Transportation) sem gerði þessa rannsókn.

Þetta þykir mörgum vera enn ein staðfesting þess að hin staðlaða mæliaðferð Evrópusambandsins sé ekki nógu góð. Hún sé allt of mikið úr takti við eyðslu bílanna í raunverulegri notkun. Þetta hefur að nokkru verið viðurkennt því að nýjar viðmiðanir við mælingarnar verða teknar upp ca. 2017.

En svo virðist sem ekki sé allt sem sýnist í þessum málum. Evrópusambandið hefur undanfarin ár gert stöðugt harðari kröfur á hendur bílaframleiðendum um minni meðaleyðslu sem þeim hefur tekist ágætlega að koma til móts við – í það minnsta á pappírnum. ICCT heldur því nefnilega fram að sumar eyðslutölur frá framleiðendum séu hreinar bjartsýnistölur sem lítið sé að marka. Eyðslutölur framleiðendanna eru þannig fengnar að þeir sjálfir eða einhverjir aðilar á þeirra vegum annast mælingarnar á vottuðum rannsóknastöðvum samkvæmt forskrift Evrópusambandsins. Vegna þess misgengis sem svo sýnir sig milli mælinganiðurstaðnanna og eyðslu bílanna í venjulegri notkun hafa margir haft grunsemdir um að sumir bílaframleiðendur útbúi sérstaklega prófunarbílanna með tölvubúnaði sem gefi sem besta útkomu (lægsta eyðslu) í prófuninni sjálfri. Sá búnaður sé síðan hreint ekki í sölubílunum sem neytendur kaupa. Þessu harðneitar talsmaður BMW í samtali við sænska Aftonbladet. Hann segir vandann þann að hin opinbera mæliaðferð sé of langt frá raunveruleikanum og endurspegli hann því ekki skár en þetta.

 En engu að síður sýna mælingar ICCT það að mesta frávikið frá uppgefinni eyðslu bíla og raunverulegrar eyðslu er hjá BMW. Raunverulega eyðslan er allt að 30% meiri. Þessi niðurstaða ICCT er fengin með því að bera saman eyðslutölur 69 þúsund bíla sem bæði eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja. Næst verstir að þessu leyti eru Audi með 28% og Mercedes með 26% umfram uppgefna eyðslu.