Hafa öryggið í hávegum

Sænsk hjólbarðasölukeðja sem heitir Vianor hefur látið athuga hvernig sænskir ökumenn undirbúa bíla sína undir vetur. Í ljós kemur að fjórðungur þeirra lætur það ógert að skipta yfir á vetrardekk fyrr en vetrarfærð er brostin á. Fimmti hver bíður með skiptin til 1. desember en þá eiga vetrarhjólbarðar sænskum lögum samkvæmt að vera undir bílnum.

Eins og hér á landi hefur undanfarin ár verið rekinn talsverður áróður gegn notkun negldra vetrardekkja vegna meints svifryks frá þeim og vegna þess hve þau eru sögð slíta upp vegum og götum. Þannig banna yfirvöld í Stokkhólmi, Gautaborg og Uppsölum  akstur á negldum dekkjum á tilteknum götum og svæðum borganna. En þrátt fyrir þetta velja tveir þriðju ökumanna í þessum borgum nagladekkin en einungis einn þriðji þau ónegldu. Aðspurðir kváðust þessir ökumenn velja negldu dekkin öryggis síns og annarra vegna.

Aðspurðir um hvaða eiginleika hjólbarða fólk hefði í mestum hávegum þegar vetrarhjólbarðar eru keyptir sögðust langflestir þeirra sem tóku þátt í könnuninni velja sér vetrardekk eftir því hversu örugg þau væru í vetrarakstri og kváðust leggja minna upp úr þáttum eins og umhverfismildi og lágum veggný.