Haldex á leið frá Svíþjóð?

Haldex hlutafélagið sænska hefur nú selt þann hluta fyrirtækisins sem nefnist Haldex Traction Systems og annast framleiðslu á hinum rómuðu fjórhjóladrifskerfum fyrir fólksbíla. Haldex fjórhjóladrifkerfi er að finna í mjög mörgum nútímabílum, t.d. VW, Lamborghini, Bugatti, Land Rover, GM, Volvo, Saab, BMW og meira að segja Subaru svo einhverjir séu nefndir. Kaupandinn er bandaríska stórfyrirtækið BorgWarner. Kaupverðið er 1,4 milljarðar sænskra króna eða 27,3 milljarðar ísl. kr.

Haldex Traction Systems í Landskrona í Suður-Svíþjóð var stofnað árið 1998 utan um framleiðslu og þróun á sérstöku tengsli (sem stundum er kallað drifköggull). Þetta tengsli er fest á afturöxul bíla og tengir inn afturhjóladrifið þegar skynjarar greina það að framhjólin byrja að skrika eða spóla. Sá sem fann upp þetta sérstaka tengsli er sænski uppfinningamaðurinn Sigge Johansson.

Fyrsti stóri bílaframleiðandinn sem keypti Haldex tengslið var Volkswagen sem fram að því hafði notast við eigið fjórhjóladrifskerfi sem nefndist Syncro. Sagan segir að Ferinant Piëch þáverandi forstjóri VW hafi sjálfur fengið að reynsluaka bíl með Haldex kerfi á ísilögðu Arvidsjaur stöðuvatninu í Norður-Finnlandi. Eftir þann akstur á hann að hafa sagt stutt og laggott. –þetta þurfum við að fá.-

En það er ekki víst að uppfinningamaðurinn sjálfur, Sigge Johansson sé jafn kátur nú. Það hefur nefnilega alltaf verið hans markmið að einkaleyfið og framleiðslan yrði um kyrrt í Svíþjóð og skapaði þar atvinnu. Nú starfa 300 manns við framleiðsluna í Landskrona. Óvissa er um hvort hún haldi áfram þar eða flytjist annað. BorgWarner er stærsti framleiðandi gírkassa, drifa og drifbúnaðar í bíla í heiminum.

Haldex  hefur undanfarna mánuði unnið að því að þróa nýja uppfinningu sem er rafdrifið fjórhjóladrifskerfi í bíla. Það nefnist eAWD. Þeir reynsluö-kumenn og bílablaðamenn sem ekið hafa Saab bíl með þessu nýja kerfi segja það taka flestu öðru fram sem þeir hafi prófað.