Hámarkshraðamörk í Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Autobahn-050501.jpg

- Fjöldi Íslendinga verður á faraldsfæti í sumar í Evrópulöndum, ýmist akandi í bílaleigubílum eða á eigin farartækjum. Mikilvægt er að virða umferðarlög og reglur og þá ekki síst hraðamörk. Þeir sem staðnir eru að hraðakstursbrotum eru mjög víða sektaðir og sektirnar innheimtar af lögreglu á staðnum og þær geta verið ansi háar og komið illa niður á ferðasjóðum fólks.

ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur tekið saman lista þann yfir hámarkshraðamörk í Evrópuríkjum sem hér birtist. Hámarkshraði í þéttbýli er víðast hvar einn og hinn sami, eða 50 km á klst. nema í Serbíu og Slóvakíu þar sem hann er 60 km á klst. Í Póllandi gilda svo mismunandi hámarkshraðamörk í þéttbýli eftir tímum sólarhringsins. Þannig er hámarkshraðinn 50 frá kl. fimm á morgnana til kl. 23.00 að kvöldi. Yfir nóttina frá kl 23.00 til fimm að morgni má svo aka á allt að 60 í þéttbýli.

Á 1+1 vegum utan þéttbýlis er fjölbreytnin meiri. Í Danmörku og Noregi, Írlandi, Serbíu, Hollandi og Sviss er hámarkshraðinn einungis 80 miðað við 90 víðast hvar annarsstaðar. Í framantöldum löndum má síðan aka á mest 100 á vegum með aðskildar akstursstefnur. Á fullburða 2+2 hraðbrautum er algengur hámarkshraði 110-130 km á klst. að undanskildum Noregi þar sem hámarkshraðbrautahraðinn er einungis 90 km á klst. Í Þýskalandi er mjög víða 130 km hámarkshraði á hraðbrautunum. Allvíða er þó enn kaflar þar sem ekki eru sérstök hámarkshraðamörk, heldur einungis mælt með því að ekið sé á 130. Fólk ætti því að gæta vel að skiltum og hraðamerkingum við vegina áður en „slegið er duglega í klárinn.“

Fyrir bíla með aftanívagn gilda allsstaðar sérreglur um hámarkshraða. Hvergi í Evrópu má aka hraðar en 130 með aftanívagn og í Þýskalandi og víðast hvar annarsstaðar má slíkt æki ekki fara yfir 80 km á klst. Þar sem hraðast má aka með aftanívagn skal bent á að alls ekki er ráðlegt að fara yfir 100 km hraða þótt leyfilegt sé að fara hraðar. Ef hraðinn er meiri en það þegar slys verður, getur myndast kröfuréttur á hendur þeim sem ók.
http://www.fib.is/myndir/Hradamork.jpg