Handfarangur flugfarþega

Það hefur oft og lengi farið í taugarnar á mörgum ferðalangnum hversu ófyrirsjáanlegar og misjafnar þær reglur eru sem flugfélög setja farþegum sínum um farangur þeirra, ekki síst handfarangur.

Nú liggur fyrir Evrópuþinginu í Brussel tillaga um handfarangur flugfarþega og hversu þungur og fyrirferðarmikill hann megi vera, en hana hefur dagað uppi í nefnd og verður hún ekki afgreidd í bráð. Það er því ekkert útlit fyrir það á næstunni að til verði ein samræmd regla um þessi mál sem ferðafólk getur gengið að vísri.

Eins og þessum málum er nú háttað ríkir fullkomin óvissa um það hvaða eða hverskonar tösku (oft kallaðar flugfreyjutöskur) megi hafa með sér inn í flugvél og hvað hún megi vera þung og hvort megi taka aðra smátösku með, eða jafnvel plastpoka með út í vél. Hvert og eitt flugfélag virðist setja um þetta eigin reglur þannig að taska sem leyfð er hjá einu flugfélagi getur verið bönnuð hjá því næsta við hliðina sem vel að merkja notar samskonar og eins innréttaðar flugvélar. Þá rukka sum flugfélög sérstaklega fyrir plastpoka með dóti sem fólk hefur keypt í fríhafnarverslun og tekur með sér út í vél. Samkvæmt fyrrnefndri tillögu á Evrópuþinginu er gert ráð fyrir því að flugfélög samræmi sem mest þessar reglur sínar um handfarangur og ennfremur og ekki síst að þau veiti farþegum sínum skýrar upplýsingar um þær og hvað þær þýða svo ekkert fari milli mála.

Áðurnefnd tillaga er ávöxtur þeirrar viðleitni Evrópusambandsins að styrkja réttindi flugfarþega – ekki bara hvað varðar handfarangur heldur líka vegna seinkana hjá flugfélögum og breytinga á flugbókunum. Í henni eru ákvæði um fríhafnarinnkaup flugfarþega og rétt þeirra til að taka það sem keypt var, með út í flugvélina ásamt handfarangri sínum án þess að þurfa að greiða sérstaklega fyrir það. Deildarstjóri ferðaskrifstofu FDM, systurfélags FÍB í Danmörku, segir að hjá mörgum flugfarþegum séu fríhafnarkaup eðlilegur hluti sumarlefisferðalagsins og því hljóti það að vera sjálfsagt að setja skýrar reglur um hversu fyrirferðarmikill þessi viðbótarhandfarangur megi vera án þess að sérstakrar greiðslu sé krafist vegna hans.

Þessum fyrirhuguðu endurbótum á réttindum flugfarþega hefur ekki beinlínis verið fagnað af flugfélögunum sem hafa mörg hver eindregið lagst gegn þeim. Á því strandar málið nú og ekki er búist við að samningar við félögin um endurbætur og samræmdar reglur náist fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár.