Handfrjáls farsími eða ekki?

Bandarísk samtök sem heita Governors Higwway Safety Association hafa rannsakað hættu sem stafar af farsímahjali ökumanna undir stýri og meðfylgjandi athyglisbresti. Niðurstaðan er sú að það gildi einu hvort notaður sé handfrjáls búnaður eða símanum haldið í hendi að eyra. Hvorttveggja sé háskalegt. Engar staðfestingar fyrirfinnist um að handfrjáls símabúnaður geri farsímatalendur við stýrið öruggari í akstri heldur en þeir sem engan handfrjálsan búnaðinn nota.

Skilaboð skýrsluhöfunda og samtakanna Governors Higwway Safety Association til almennings og yfirvalda eru því þessi: -Hættið að krefjast þess að ökumenn tali einungis í farsíma með hjálp handfrjáls búnaðar undir stýri! Út frá umferðaröryggissjónarmiðum er miklu nær að leggja blátt við því að tala í farsíma í akstri yfirleitt.

Rannsóknin fór þannig fram að farið var í saumana á 350 vísindarannsóknum sem gerðar hafa verið á  meintri hættu sem fylgir farsímahjali ökumanna í akstri. Sjá má rannsóknarskýrsluna hér.  Meginniðurstaða hennar er sú að það myndi þjóna umferðaröryggishagsmunum langsamlega best að banna hreinlega allt símablaður undir stýri. Allt símatal, hvort heldur sem það er með handfrjálsum búnaði eða ekki, dreifi athyglinni og trufli einbeitingu við aksturinn. Almennt er talið að 15-25% umferðarslysa verð vegna þess að ökumenn tapa einbeitingu sinni og athygli.