Handfrjálsir Fólksvagnar

Nánast allir nýir VW bílar sem afhentir verða sænskum kaupendum frá og með árgerð 2013 verða með þráðlausum handfrjálsum farsímabúnaði. Maria Spetz framkvæmdastjóri Motormännen, sem er systurfélag FÍB í Svíþjóð, fagnar þessu. Hún segir að búnaður af þessu tagi sé líklegur til að koma í veg fyrir slys sem verða vegna þess athyglisbrests sem farsímafitl ökumanna hefur í för með sér. „Við fögnum öllu framtaki sem stuðlar að auknu umferðaröryggi,“ segir Maria Spetz.

Menn hafa lengi rökrætt hvort og hversu mikilli hættu stafi frá ökumönnum sem tala í síma undir stýri. En fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að verulegri hættu stafar frá ökumönnum sem eru að slá inn símanúmerum eða lesa og senda smáskilaboð í miðjum akstri og flakka um á Netinu. Ein rannsóknin hefur sýnt þá niðurstöðu að slík farsímanotkun sé álíka hættuleg og að keyra um blindfullur.

Innflytjandi Volkswagen til Svíaríkis segir að handfrjáls Bluetooth búnaður verði frá og með árgerð 2013 (sem kemur á markað síðsumars) í 98,5% nýrra Volkswagen bíla. Framkvæmdastjóri innflutningsfyrirtækisins segir við Auto Motor & Sport að það hafi alltaf verið stefna hjá Volkswagen að koma nýrri tækni sem fyrst á framfæri við almenna bílakaupendur og síðan hafi aðrir bílaframleiðendur fylgt frumkvæði Volkswagen.