Haraldur Noregskóngur fær nýjan Audi

Haraldur Noregskonungur hefur fengið nýjan sérbyggðan Audi A8 afhentan. Bíllinn er sá fyrsti af nokkrum svipuðum sem ýmis stórmenni hafa pantað eftir að hafa frétt af smíði þessa bíls. Bíll Noregskonungs er hvorki meira né minna en 6,36 m langur og lengd milli öxla er 4,22 m.

Þótt langur sé er þessi sérbyggði lúxusvagn ekki nema sex manna. Hann er sex dyra og við hlið ökumanns er eitt farþegasæti en fjögur eru aftur í. Bíllinn er eiginlega sérbyggð og lengd útgáfa lúxusbílsins Audi A8 L eins og fullt nafn vagnsins gefur til kynna. Það er Audi A8 L Extended (lengdur).

Eins og geta má nærri er það talsvert vandaverk að hanna og byggja svona langan fólksbíl sem þrátt fyrir lengdina skal vera léttbyggður, traustur og jafnframt lipur og öruggur í akstri. Því segjast Audi-menn sig hafa náð með því að byggja bílinn að mestu úr áli og utan um burðarvirki sem gert er úr rörum eða prófílum (Spaceframe).

Þægilegustu sætin í bílnum eru þau tvö (þau konunglegu) í öftustu sætaröðinni og við þau eru ýmis þægindi eins og fullkominn fjölmiðlunar- og fjarskiptabúnaður og kæliskápur fyrir kampavín og kannski nokkrar samlokur líka til að maula með því.

Vélin er þriggja lítra TFSI vél. Hún er 310 hö. og snúningsvægið eða vinnslan er 440 Newtonmetrar. Samanlagt þýðir það viðbragð upp á 7,1 sek í hundraðið og 250 km hámarkshraða. Átta stiga sjálfskipting miðlar aflinu til allra fjögurra hjóla en þau eru 18 tommur í þvermál.