Harley Davidson rafhjól

Harley Davidson, frægasti mótorhjólaframleiðandi heims og lengstum tákn sjálfrar íhaldsseminnar í hönnun og framleiðslu mótorhjóla hefur tekið stórt skref inn í framtíðina með því að kynna rafknúið mótorhjól. Sjálfsagt finnst einhverjum þetta jaðra við helgispjöll ekki ósvipað því þegar Bob Dylan, bjartasta von bandarísks þjóðlagasöngs byrjaði að troða upp með rafgítar og rafmagnshljómsveit á sjönda áratuginum. Og nú hálfri öld síðar sýnir Harley Davidson sitt fyrsta rafknúna mótorhjól.

Af myndunum að dæma er ekki ástæða til annars en að ætla að þeim Harleymönnum sé fúlasta alvara. Hjólið, sem nefnt er Livewire, virðist vera þaulhugsað og mjög til þess vandað. Og fallegt er það að sjá, þótt hinn dæmigerði Harley V-mótor sé á burt. Spurning er bara hvenær eða hvort það sé væntanlegt í almenna sölu og hvað það þá muni kosta. Engar slíkar upplýsingar eru veittar, og engar heldur um afl, afköst og drægi.

Talsmenn Harley Davidson segja að með þessari frumgerð rafhjóls sé fyrst og fremst verið að kanna viðbrögð markaðarins og áhugafólks um mótorhjól. Það verði gert með því að senda hjólið út í mikinn hjólatúr eftir hinum fræga vegi Route 66. Í túrnum verða 60 Harley söluumboð við Þennan sögufræga veg heimsótt og munu sumir umboðsaðilanna fá að reynsluaka hjólinu. Og á næsta ári verður hjólið, eða samskonar hjól í það minnsta verða sent í svipaða för um Evrópu.