Háskalegir loftpúðar

Um það bil 11 bílaframleiðendur hafa innkallað átta milljón bíla um allan heim vegna gallaðra loftpúða. Púðarnir gætu átt það til að springa fyrirvaralaust út að tilefnislausu eða þá bara að springa bara alls ekki út við árekstur. Hvorttveggja er talið hafa leitt til alvarlegra umferðarslysa og mannfórna.

Loftpúðarnir sem hér um ræðir eru frá japanska framleiðandanum Takata og fyrirfinnast í fjölda bifreiða, ekki bara japönskum heldur líka bandarískum og evrópskum. Talið er að um að loftpúðar frá Takata séu í um það bil fimmta hverjum bíl í heiminum. New York Times greinir frá því að hjá Takata virðist menn hafa reynt að dylja vandann og sópa honum undir teppið. Ef það reynist satt, hafa Takata-menn gerst sekir um glæpsamlegt athæfi segir Automotive News.

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA rannsakar málið og hefur skipað Takata og Honda í Bandaríkjunum að skila inn skjölum og gögnum allt að 10 ár aftur í tímann. Rannsóknin beinist að því hvort saknæm yfirhilming hafi átt sér stað í málinu. New York Times leiðir getum að því að hátt settir yfirmenn fyrirtækjanna eigi þar hlut að máli.  

Því til staðfestingar er vitnað í tvo heimildamenn, fyrrverandi starfsmenn Takata sem sem greina frá þvi að eftir bílslys fyrir 10 árum, þar sem ökumaður bíls slasaðist þegar loftpúði virkaði ekki sem skyldi og veitti honum áverka, hafi verið gerðar 50 leynilegar prófanir á loftpúðum. Í þeim hafi fundist hættulegir gallar í sprengibúnaðinum en í stað þess að tilkynna það réttum yfirvöldum hafi yfirmenn Takata stöðvað frekari prófanir og látið eyða öllum gögnum um þær.