Háskólaborgari spjarar sig sem bílasali í Danmörku

The image “http://www.fib.is/myndir/BS.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
SMC-Biler er fyrirtæki sem selur nýja og notaða bíla í Vejle í Danmörku. Fyrir um ári réði forstjóri bílasölunar háskólamenntaðan mann sem sölumann í fyrirtækjasöludeild SMC-Biler og telur sig heldur betur hafa skorað mark með ráðningunni. Sá háskólamenntaði kunni að nýta sér upplýsingatækni í sölustarfinu og byggja upp hóp tryggra viðskiptavina og það hafi skilað sér í kassann í beinhörðum peningum.
Þessi ágæti háskólaborgari heitir Lars Hedegaard og er með BA gráðu í tungumálum og alþjóðasamskiptum. „Hann hefur sannarlega borgað sig fyrir fyrirtækið,“ segir forstjóri SMC-Biler við dagblaðið Børsen og heldur áfram: „Háskólamenn nálgast hlutina á annan og kerfisbundnari hátt en við þessir gömlu í hettunni, þeir hugsa öðruvísi og koma úr allt öðru umhverfi heldur en við gömlu bílakallarnir.“ Hann segir að salan í fyrirtækjasöludeildinni hafi snaraukist eftir að Lars Hedegaard kom til starfa og miklu meira sé að gerast innan fyrirtækisins nú en áður. Þannig taki t.d. sérstök næturvakt til starfa á þjónustuverkstæði fyrirtækisins þann 1. ágúst vegna stóraukinna umsvifa.