Hátíðar-blaðamannafundir

Dyr bílasýningarinnar miklu í Frankfurt sem haldin er annað hvert ár, voru opnaðar fyrir blaðamönnum og bílaumboðsmönnum síðdegis í gær. Þá hófst þessi mikla uppskeruhátíð bílaframleiðenda með blaðamannafundum þar sem framleiðendurnir kynntu nýjungar sínar. Sýningin verður eingöngu opin blaðamönnum og fólki úr bílgreinum í dag og á morgun en öllum almenningi frá og með fimmtudagsmorgni.

Þessir ofannefndu fundir geta kannski varla kallast blaðamannafundir lengur þar sem upplýsingar eru veittar og blaðamenn spyrja spurninga, heldur skemmtidagskrá. Þeir fara fram þannig að forstjóri eða stjórnarformaður heldur tölu um bíla sína og fyrirætlanir og markmið en listamenn koma fram í stórkostlegum skemmtiatriðum með tónlist og dansi.

Þannig var það hjá Volkswagen hópnum í gærkvöldi. Blaðamannafundurinn hófst með því að ljósin í salnum dofnuðu, kastljósi var beint að hinum frægu raftónlistarmönnum Neil Tennant og Chris Lowe í dúettinum Pet Shop Boys og þeir byrjuðu á að flytja lagið sitt West End Girls inn í milli nýju bílanna. Viðeigandi var það vissulega að fá raftónlistarmennina áheyrilegu til að flytja tónlist sína, m.a. af nýjustu plötunni sinni sem einmitt heitir Rafmagn. Rafmagn er það nefnilega sem VW leggur mikla áherslu á að kynna á sýningunni. Þarna á blaðamannafundinum gaf m.a. að líta rafknúinn gylltan VW up! með búnaði til að baka og selja pizzur.

Þegar svo Pet Shop Boys höfðu lokið sínu verki hélt hinn voldugi forstjóri og stjórnarformaður VW; Martin Winterkorn ræðu og sagði að nú væri VW að demba sér út í rafvæðinguna og hann væri sannfærður að að nú væri hárrétti tíminn til þess loks runninn upp. -Við ætlum bjóða upp á alla okkar bíla með rafmagns knýbúnaði sem valkost. Árið 2018 verður Volkswagen ekki einungis orðinn mesti bílaframleiðandi heims heldur líka mesti rafbílaframleiðandi heims, sagði Winterkorn meðal annars.

Nokkurn forsmekk að þessum fyrirætlunum gefur að líta á sýningarsvæði Volkswagen hópsins, m.a. fyrrnefndan rafmagns-VW up! sem reyndar kallast fullu nafni VW Load Up! Einnig gefur að líta tvo Porsche tengiltvinnbíla; Panamera og 918. Þá er þarna einnig hinn nýi Audi A3 e-tron og rafknúinn Volkswagen Golf.

Frá ofursportbíladeild Volkswagen gefur að líta bíla eins og Bugatti og Lamborghini. Í flestum tilfellum eru engar tímamótabreytingar á þessum bílum. Aðallega smábreytingar eins og nýir litir, aðeins fleiri hestöfl hér og þar og öðruvísi grill og slíkt og jafnvel ný nöfn.

En fyrir almenning er ýmislegt nýtt í vændum frá VW hópnum. Frá Skoda er sýnd ný undirgerð Skoda Rapid sem kallast Spaceback sem er áhugaverð. Frá Volkswagen er væntanlegur arftaki hins stækkaða Golf Plus. Nýi bíllinn nefnist Sportsvan og á að höfða til yngra bílafólks, betur en gamli Plúsinn hefur gert.

Sportbíladeild Audi sýnir svo A3 blæjubílinn nýja og frumgerð hins nýja Audi Quattro sem ber millinafnið Nanuk. Þessi bíll þykir mjög „ítalskur“ í útliti og fallegur. Hann er með 560 hestafla V8 vél og 110 hestafla rafmótor. Það mun fara eftir viðbrögðum sýningargesta hvort  þessi bíll verði settur í fjöldaframleiðslu. Evvrópsku bílablaðamennirnir sem skoðað hafa þennan bíl á sýningunni í gærkvöldi og í morgun segja að hann muni vafalítið falla í kramið hjá stöndugu fólki í Rússlandi og olíuríkum arabaríkjum.