Hátíðarsýning í tilefni 70 ára afmælis Land Rover

Á sjö áratugum hefur Land Rover tekið sér bólfestu djúpt í vitund þjóðarinnar. Hann er sá sem allir hafa sína skoðun á. Hann hefur í áratugi verið og er enn víða þarfasti þjónn íslenskra bænda við bústörfin, helsti ferðafélagi á fjöllum og „költið“ í augum margra bílaáhugamanna og ferðaþjónustuaðila sem vilja helst ekki sjá neitt annað.

 Og nú er ballið rétt að byrja því í tilefni 70 ára afmælis Land Rover á heimsvísu býður BL til afmælisveislu nk. laugardag milli 12 og 16 í nýjum höfuðstöðum Jaguar Land Rover við Hestháls í Reykjavík.

Í afmælinu verður boðið upp á veitingar auk þess sem til sýnis verða nokkur gömul og góð eintök af þarfasta þjóninum hér á landi, meðal annars einn sá elsti í íslenska flotanum sem er frá fyrstu árum framleiðslu Land Rover. Auk gömlu eintakanna verða allar nýjustu gerðir jeppanna frá Land Rover til sýnis á laugardag, vegleg afmælistilboð verða á völdum nýjum bílum og reynsluakstursbílar til reiðu.

Frumeintak Land Rover I Series fundið

Fyrsti bíllinn með heitinu Land Rover var frumsýndur 30. apríl 1948 á bílasýningunni í Amsterdam. Frumeintakið hafði þá verið tilbúið frá árinu áður og er fyrsta árgerðin því oft miðuð við 1947. Bíllinn hafði skráningarnúmerið HUE166. Ekki alls fyrir löngu fundu starfsmenn Land Rover Classic Works í Solihull í Bretlandi þennan sama bíl eftir langa leit, enda hafði lítið til hans spurst í marga áratugi.

Bíllinn gekk kaupum og sölum fyrstu áratugina og 1955 var síðast vitað með vissu að hann væri enn á skrá, þá í Wales þar sem hann var í ein tuttugu ár áður en hann var seldur burtu. Eftir langa og stranga leit fannst bíllinn fyrir tilviljun í húsagarði og það sem meira er, í garði skammt frá Solihull þar sem hann var upphaflega framleiddur. Eftir ítarlega skoðun var staðfest að um frumeintakið væri að ræða; fyrsta Land Roverinn sem fyrirtækið smíðaði.

Mikið verk fyrir höndum

Starfsmenn Land Rover hafa unnið hörðum höndum við uppgerð bílsins því ætlunin er að frumsýna hann á ný fyrir árslok við hátíðlega athöfn í Solihull. Eins og myndin ber með sér sem tekin var af bílnum skömmu eftir að hann fannst var ástandið fremur bágborið.

Það verður því gaman að sjá hann á ný á frumsýningardaginn, þá væntanlega í útliti nær því sem hin myndin sýnir af honum þegar 10 ára afmæli hans var fagnað 1958. Það verður þó ekki alveg svo því ákveðið hefur verið að varðveita ákveðin sérkenni sem myndast hafa með árunum.   

Sérkenni frumeintaksins

Við upphaf vinnu við uppgerð bílsins lá ljóst fyrir að taka þyrfti bílinn algerlega í sundur áður en byrjað yrði á  uppgerðinni. Það átti líka við um bílvélina, drif og gírkassa. Að sögn Tim Hannig, framkvæmdastjóra Land Rover Classic Works, er ýmislegt sérstakt við frumeintakið HUE166 miðað við þá bíla sem á eftir komu. Til að mynda er álið í yfirbyggingunni þykkara heldur en síðan var notað auk þess sem bíllinn er með galvaníseraða grind og skúffu sem auðvelt er að fjarlægja.

Við uppgerðina var ákveðið að varðveita spansgrænuna sem víða hefur myndast í gegnum árin ásamt upprunalega ljósgræna lit bílsins sem notaður var 1948 og fékkst ódýrt hjá breska hernum. Sá litur einkenndi einnig fyrstu fjöldaframleiddu bílana. Skráningarnúmerið HUE166 hefur með tímanum orðið að einkennisorði bílaáhugamanna sem eiga sams konar bíl og Land Rover Series I eins og hann hét þegar sala hófst 1948.