Hátt skilagjald herðir á bílasölu

http://www.fib.is/myndir/Opel-agila.jpg

Sala á Agila, sem er minnsti bíllinn hjá Opel, tvöfaldaðist og salan á Corsa jókst um 70 prósent í janúarmánuði í Þýskalandi. Hjá Opel hefur verið hætt við að fækka vöktum og stytta vinnudaginn í verksmiðjunum sem byggja bílana. 

Bílasalar í Þýskalandi eru hæstánægðir með hið 2.500 evra háa skilagjald sem þýska ríkið setti á gamla bíla, níu ára og eldri, um áramótin. Þetta sérstaka skilajgjald er háð því að keyptur sé nýr umhverfismildur bíll. Þá er skilagjaldið dregið frá verði nýja bílsins. Gjaldið var sett á, m.a. til að örva framleiðslu og sölu nýrra bíla í kreppunni og til að koma í veg fyrir að bílaiðnaðurinn hreinlega frysi.

Sú ætlan hefur greinilega tekist því að salan hjá Opel í heild hefur aukist um 30 pósent og hjá Peugeot um 80 prósent. Þá eru Volkswagen Polo og Golf víða orðnir uppseldir. Það er kannski ekki skrítið því að kaupendur geta nú vegna skilagjaldsins eignast nýjan VW Golf VI fyrir minna en 10.000 evrur.

Með þessu háa skilagjaldi á gömlu bílana hefur bílasala í Þýskalandi tekið mjög mikinn kipp. Stærstu bílasölufyrirtækin segja að mjög mikið sé nú sóst eftir smá- og meðalstórum bíium og allir lagerar séu ýmist tómir eða við það að tæmast af smábílum frá Fiat, Peugeot, Kia og Hyundai.  Þá hafi sala í  heimategundunum Opel og Volkswagen einnig vaxið miklu meir en nokkur gerði ráð fyrir. Af einstökum gerðum má nefna að salan á Opel Agila (Suzuki Splash) hefur tvöfaldast og aukist um 70 prósent á Opel Corsa. Forstjóri Peugeot í Þýskalandi segir við tímaritið Automobilwoche að hann áætli að selja 12.000 Peugeotbíla beinlínis fyrir tilstilli skilagjaldsins. 

En flest bílaumboðin hafa frá áramótum boðið sérstaka afslætti af nýjum bílum til viðbótar við úreldingargjaldið góða frá ríkinu. Samanlagt þýðir það í mörgum tilfellum að fólk er að eignast glænýjan neyslugrannan og umhverfismildan góðan bíl fyrir langt undir tíu þúsund evrur sem er mun hagstæðara en hefur boðist um árabil. Þannig fæst nýr Skoda Fabia nú í Þýskalandi fyrir um 6.000 evrur. Þá er búið að draga frá skilagjaldið fyrir níu ára gömlu drusluna og alla þá afslætti sem í boði eru.