Hefur ADHD áhrif á aksturinn?

Keyrir fólk með ADHD hraðar en þeir sem ekki eru með ADHD? Svíar hyggjast m.a. leiða það í ljós í ný…
Keyrir fólk með ADHD hraðar en þeir sem ekki eru með ADHD? Svíar hyggjast m.a. leiða það í ljós í nýrri rannsókn sem er hafin á vegum VTI.

Sænska vega- og umferðarstofnunin VTI, (Statens väg- och transportforskningsinstitut) er að hefja rannsókn á því hvort fólk sem greint hefur verið með ADHD aki of hratt miðað við aðstæður og akstursgetu, sé gjarnara á að taka skyndiákvarðanir og eigi erfiðara með að einbeita sér í bifreiðaakstri.

Í fréttatilkynningu VTI um þessa rannsókn segir að fyrri rannsóknir sem gerðar hafi verið hafi sýnt að fólk sem greint hefur verið með ADHD sé allt að fjórfalt líklegra til að lenda í umferðaróhöppum en aðrir. Þeim niðurstöðum verði hins vegar að taka með þeim fyrirvörum að bæði kunna að vera gloppur í rannsóknunum sjálfum og úrvinnslunni sem og í hinum sálfræði- og læknisfræðilegum greiningum að baki ADHD stimplinum

Þess vegna er ætlunin nú að prófa og bera saman hópa fólks sem hefur annarsvegar greinst með ADHD og fólk sem er það ekki. Fólkið verður sett í ökuherma og mældur verður viðbragðstími, eftirtekt og val á ökuhraða við mismunandi aðstæður. -Við viljum komast sem nákvæmast að því hvernig ADHD hefur áhrif á akstursgetuna og hvort og hvernig hún er öðruvísi hjá ADHD- fólki og þeim sem ekki hafa ADHD, segir Birgitta Thorslund hjá VTI.