Heilsuvá enn talið stafa frá diskahemlum

 Þar til fyrir um tveimur áratugum var asbest  notað í hemlaborða. Svo uppgötvaðist að asbest er stórháskalegt efni og asbestagnir eyðileggi lungu fólks. Önnur efni voru fundin upp í borða og bremsuklossa og reyndar í bremsudiska líka en nú sýnir ný rannsókn á vegum Konunglega sænska tækniháskólans að öragnir frá bremsunum séu skaðlegar heilsunni og skaðlegri en áður var haldið. Því verði nú að leita annarra og síður skaðlegra efna í bremsuklossa og -borða.

 Bíleigendur þekkja flestir dökka ryklagið sem safnast upp á framfelgunum, en það er að rekja til bremsuklossanna og bremsudiskanna sem slitna við notkun. Í þessu slitryki eru allskonar efni og þar á meðal öragnir sem berast út í andrúmsloftið og þaðan ofan í lungu fólks og geta þar valdið bæði krabbameini og hjartabilunum. Sá fyrirvari er þó á að ekki sé að fullu rannsakað hvers konar skaða efnin geta valdið og hvers vegna.

 Í bremsudiskum og bremsuklossum í bílum er mikið samsafn efna. Þar eru málmar eins og járnoxíð, kopar og jafnvel lífræn efni eins og kastaníuhnetumulningur segir Ulf Olofsson prófessor við Svenska Dagbladet. Hann segir að eftir því sem reglur um magn eitraðra málma eins og kvikasilfurs og kadmíum í þessum slithlutum hafi verið hertar í áranna rás hafi mælst sífellt minna magn þeirra í andrúmsloftinu. Bremsuslithlutirnir hafi sífellt verið að verða heilsusamlegri, en alltaf megi gera betur og rannsóknin nú stuðli vonandi að því.