Heimskynning á nýja Mercedes Benz GL –jeppanum á Íslandi

http://www.fib.is/myndir/Benz-GL.jpg
Mercedes Benz GL

Einn af stærri blaðamannviðburðum sem haldinn hefur verið hér á landi hefst um næstu helgi þegar fyrstu hóparnir af 400 blaðamönnum allstaðar að úr heimum koma þá til Íslands þar sem kynntur verður nýr stór jeppi frá DaimlerChrysler, Mercedes-Benz GL-Class. Auk hans verður kynnt sérstaklega ný dísilvél í Mercedes-Benz ML-jeppann. Fyrirtækið Pegasus hefur séð um undirbúning þessa viðburðar. Bílaumboðið Askja sem er umboðsaðili fyrir Mercedes Benz mun hefja sölu á bílnum í lok sumars og liggja þegar fyrir pantanir á bílnum.

Jón Trausti Ólafsson markaðsstjóri Öskju segir að undirbúningur þessa hafi staðið lengi, eða frá síðasta hausti. Af hálfu Mercedes Benz sé mikið lagt upp úr þessari frumkynningu enda sé GL jeppinn einn mikilvægasti nýi bíllinn sem frá Benz hefur komið – stór fimm til sjö manna lúxusjeppi með afbragðs aksturseiginleika. Þessi nýi bíll verði fáanlegur með mörgum öflugum vélargerðum, bæði bensín- og dísilvélum sem ná allt að 400 hestöflum.

Það er íslenska fyrirtækið Pegasus sem sér um kynninguna í samvinnu við þýskt fyrirtæki. Kynningin fer í stórum dráttum þannig fram að blaðamennirnir fá tækifæri til að hitta hönnuði nýja bílsins og tæknimenn og ýmsa af stjórnendum Mercedes Benz að máli auk þess að reynsluaka bílunum. Blaðamönnunum er skipt upp í 7 hópa sem hver um sig fær tveggja daga kynningu og reynsluakstur. Íslenskir blaðamenn verða í fyrsta hópnum sem byrjar á sunnudaginn kemur og verður blm. FÍB blaðsins þeirra á meðal.

Sjálfur reynsluaksturinn fer fram á fyrirfram ákveðnum leiðum sem valdar hafa verið með tilliti til þess um jeppabíl er að ræða, en einnig með tilliti til fjölbreytni í landslagi og náttúrufari. Bæði Jón Trausti og Einar Sveinn Þórðarson framkvæmdastjóri Pegasus láta vel af samstarfinu við forráðamenn Mercedes Benz í undirbúningi þessa viðamikla verkefnis. Þeir segja það eftirtektarvert hversu mikla virðingu þeir beri fyrir landi og þjóð og þá áherslu sem þeir hafi lagt á að í hvívetna verði farið að lögum og reglum og einungis ekið á löglegum vegum en hvergi utan þeirra.

Auk blaðamannanna 400 koma til landsins um 60 manns frá Mercedes Benz sem starfa munu við verkefnið við hlið um 40 Íslendinga. Auk bílanna 70 eru komnir um 20 40 feta gámar með varahlutum og hjólbörðum fyrir bílana. Búið er að taka á leigu gríðarmikið húsnæði til að geyma og þjónusta bílana og allt úthaldið, rhótelherbergi eru bókuð og matur og drykkur pantaður, m.a. á áfangastöðum í sjálfum reynsluakstrinum o.s.frv. Ljóst er af öllu þessu að verkefnið er gríðarlega kostnaðarsamt og gefur af sér verulegar tekjur hér á landi.
The image “http://www.fib.is/myndir/Benz-GL2.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.