Heimsmet á Seat Ibiza

http://www.fib.is/myndir/SeatIbiza-Plattner.jpg
Gerhard Plattner við upphaf ferðalagsins.

Austurríkismaður að nafni Gerhard Plattner hefur sett heimsmet í sparakstri á nýjum Seat Ibiza Ecomotive. Hann ók 1.560 kílómetra frá Spáni um Frakkland til Þýskalands á nokkurnveginn tankfylli af dísilolíu eða 45,53 lítrum. Það þýðir að bíllinn eyddi að meðaltali 2,9 lítrum á hundraðið í túrnum.

Seat Ibiza Ecomotive er sérstaklega byggður með sparneytni fyrir augum. Hann er léttari en hefðbuninn Seat Ibiza og loftmótstaða hefur verið gerð minni. Dísilvélin er 1,4 l að rúmtaki, 80 hestöfl. Samkvæmt Evrópumælingu er uppgefin eyðsla bílsins 3,7 lítrar á hundraðið eða 0,1 lítra minni en sambærilegrar eldri gerðar.

Sparakstursmeistarinn Plattner lagði af stað í för sína frá verksmiðjusvæði Seat í Martorell, skammt utan við Barcelona á Spáni þann 27. apríl sl. Áður en hann lagði af stað var búið að fylla á eldsneytistankinn og innsigla hann síðan. Markmiðið var að komast 1.345 kílómetra á tanknum og var stefnan tekin á Frankfurt í Þýskalandi um Perpignan, Avignon, Lyon, Mulhouse og Freiburg. Gerhard Plattner ók á eðlilegum og löglegum hraða alla leiðina, fylgdi umferðinni og hraða hennar og fór t.d. aldrei undir löglegan lágmarkshraða á hraðbrautunum.

Á leið sinni um Spán og Frakkland var hraðinn oft í kring um 110 km á klst og þegar hann náði áfangastað í Frankfurt var ljóst að nýi Ibiza bíllinn hafði náð heimsmeti í sparakstri í sínum stærðarflokki. En þá varð líka ljóst að enn var olía eftir á tanki bílsins, þannig að ákveðið var að halda akstrinum áfram til Göttingen. Þegar þangað var komið rauf formaður IPMC (International Police Motor Corporation), sem fylgst hafði með akstrinum frá upphafi til enda, innsiglið. Þegar fyllt var á tankinn í Göttingin komst nákvæmlega sama magn á hann eins og sett hafði verið á við upphaf ferðalagsins; 45,53 lítrar. Þar með var ljóst að eyðslan var undir þremur lítrum á hundraðið

Seat er eins og Skoda, dótturfyrirtæki Volkswagen. Sami eða svipaður tækni- og vélbúnaður er í  öllum þessum bílum. Uppgefin eyðsla Seat Ibiza Ecomotive er, eins og fyrr er sagt, 3,7 lítrar pr. 100 km þannig að í raun er um ótrúlega sparneytni að ræða. Aðrir bílar sem nú eru fáanlegir með uppgefna sömu eyðslu og einungis 98 g af koldíoxíðútblæstri pr. kílómetra eru t.d. Ford Fiesta 1,6 TDI/90 Econetic.

En það er enn meiri sparneytni á leiðinni því að á næsta ári kemur á markað nýr Volkswagen Polo Blue Motion. Uppgefinn koldíoxíðútblástur hans verður einungis 87 g/km og uppgefin eyðsla einungis 3,3 lítrar/100km. Sá bíll er því líklegur til að slá heimsmet Gerhards Plattners á Seat Ibiza Ecomotive.