Heimsþekktur bílahönnuður til Lada

Þau tíðindi hafa gerst að Steve Mattin fyrrverandi yfirhönnuður hjá Volvo hefur verið ráðinn til Lada í Rússlandi og byrjar störf um næstu mánaðamót. Mikið stendur til hjá Lada um þessar mundir sem hefur verið í mikilli lægð allt frá falli sovétskipulagsins. Mikil markaðssókn er að hafin og boðaðar hafa verið 20 nýjar bílgerðir næstu fimm árin. 

AvtoVAZ heitir fyrirtækið sem framleiðir Lada bílana. Það var upphaflega sett á fót af sovétsstjórninni í samvinnu við Fiat og reistur var heill verksmiðjubær, Togliatti, á bakka Volgu með verksmiðjum og íbúðahverfum og samgönguleiðum á landi, lofti og á Volgufljóti. Fyrstu Lödurnar voru endurbætt útgáfa Fiat 124, sem valinn var bíll ársins í Evrópu í byrjun sjöunda áratugarins. Síðar  kom svo smájeppinn Lada Niva sem kallaðist Lada Sport hér á landi, síðan Lada Samara, smábíllinn Kalina, Lada C, sem myndin er af, o.fl. gerðir. Allir þessir bílar eru enn framleiddir, en nú hugsa menn sér að bæta um betur og koma með nýjungar hverja á fætur annarri.

AvtoVAZ hefur verið frá árinu 2008 að fjórðungi í eigu Renault en Renault/Nissan leitast nú eftir kaupum á öðrum fjórðungi hlutafjárins. Þar með fengi Renault/Nissan allt stjórnunar- og ákvörðunarvald. AvtoVAZ er stærsti bílaframleiðandi Rússlands og framleiðslugetan er um ein milljón bíla á ári. Hönnuðurinn Steve Mattin starfaði áður í 17 ár hjá DaimlerChrysler við hönnun Mercedes Benz bíla. Hann var ráðinn yfirhönnuður Volvo vorið 2005. Meðal Volvobíla sem hann hannaði eru XC60, S60 og V60.