Hekla kolefnisjafnar sig

http://www.fib.is/myndir/Hekluskogar.jpg
Ísólfur Gylfi Pálmason (nær) og Knútur G. Hauksson undirrita samkomulag Hekluskóga og Heklu hf. í morgun.

Starfsemi bifreiðaumboðsins HEKLU verður kolefnisjöfnuð frá deginum í dag að telja. Jafnframt mun HEKLA greiða fyrir eins árs kolefnisjöfnun allra nýrra Volkswagenbíla og njóta Hekluskógar ávinningsins.

Samkomulag þessa efnis var undirritað við athöfn í höfuðstöðum HEKLU í morgun af Knúti G. Haukssyni, forstjóra HEKLU, og Ísólfi Gylfa Pálmasyni, formanni verkefnisstjórnar Hekluskóga, um leið og gengið var formlega frá kolefnisjöfnun fyrsta Volkswagenbílsins.http://www.fib.is/myndir/IsolfurGylfi.jpg

„Þetta er eðlilegt framhald af þeim áherslum sem framleiðendur Volkswagen hafa lagt á umhverfismál en skógrækt og landgræðsla er einföld og áhrifarík aðferð til að bæta umhverfið og eyða óæskilegum árhrifum gróðurhúsalofttegunda,“ segir Knútur G. Hauksson, forstjóri HEKLU.

Kolefnisjöfnun felst í að binda í náttúrunni samsvarandi magn kolefnis og sleppt er í formi gróðurhúsalofttegunda við eldsneytisbruna. Felur verkefnið annars vegar í sér kolefnisjöfnun á starfsemi HEKLU og hins vegar eins árs kolefnisjöfnun allra nýrra Volkswagenbíla hér á landi í boði HEKLU.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að geta kynnt Volkswagen sem fyrstu kolefnisjöfnuðu bílategundina á Íslandi,“ segir forstjóri HEKLU. „Volkswagen er í fremstu röð í heiminum í þróun og hönnun umhverfisvænni bílvéla. Ég nefni sem dæmi TDI-dísilvélarnar, TSI og FSI-bensínvélarnar, nýju metanbílana og síðast en ekki síst hina byltingarkenndu og sparneytnu BlueMotion bíla, sem eru væntanlegir fljótlega.“

Samningur HEKLU við Hekluskóga er til þriggja ára, til að byrja með, og hljóðar hann samtals upp á 30 milljónir króna, eða 10 milljónir á ári, og nær yfir bæði kolefnisjöfnun nýrra Volkswagenbíla og fyrirtækisins sjálfs, þ.e. allan akstur starfsmanna í þágu fyrirtækisins, allan reynsluakstur og aðra losun gróðurhúsalofttegunda sem starfsemin hefur í för með sér. Mun Deloitte hf. annast úttekt og eftirlit verkefnisins.

„Þetta samstarf er afar mikilvægt fyrir Hekluskóga,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, formaður verkefnisstjórnar. „Fyrir þetta framlag HEKLU verða gróðursettar 600 þúsund birkiplöntur, sem skipt verður í 1.000 litla lundi, og þaðan mun birkið dreifast um svæðið. Að 35 árum liðnum mun þetta framlag HEKLU hafa breiðst út um 800 hektara lands, sem er álíka svæði og sjálfur Hallormsstaðarskógur!“

http://www.fib.is/myndir/Handlanga.jpgVið athöfnina í dag var jafnframt gengið formlega frá kolefnisjöfnun fyrsta Volkswagenbílsins og var eiganda hans afhent myndarleg birkiplanta af því tilefni og vottorð frá HEKLU og Hekluskógum um kolefnisjöfnun bílsins í eitt ár. Við það tækifæri var forsvarsmönnum Hekluskóga einnig afhent melgresisfræ og 65 plöntur, fyrst og fremst birki en einnig víðir og reyniviður. Þessar tegundir verða uppistaðan í endurheimt Hekluskóga og ræktun þeirra mun kolefnisjafna fyrsta bílinn. Má því segja að afhending plantnanna marki formlega upphaf kolefnisjöfnunarátaks HEKLU og samstarfsins við Hekluskóga, enda brettu fulltrúar beggja aðila strax upp ermar og handlönguðu plönturnar upp í sendibíl sem flutti þær af stað austur að Heklu.