Hella Park Assist

http://www.fib.is/myndir/Hella-logo.jpg

Þýska íhlutafyrirtækið Hella í Þýskalandi hefur kynnt nýtt sjálfvirkt kerfi sem leggur bílnum í stæði. Þetta er ekki ósvipað því kerfi sem þegar fæst í Toyota Prius. Hella hefur tilkynnt að nýja kerfið verði í fáanlegt sem auka- eða staðalbúnaður í nýjum bílum frá og með árgerð 2009 sem þýðir að það verður í bílum frá og með haustinu 2008.

Kerfið hjá Hella vinnur þannig að skynjari á hlið bílsins mælir sjálfvirkt lengd stæðis sem ætlunin er að leggja í. Þegar kerfið síðan gefur ökumanni merki um að bíllinn komist fyrir í stæðinu þarf ökumaður aðeins að setja í afturábakgír og stíga létt á bensíngjöfina. Eftir það sér bíllinn sjálfur um að leggja sér í stæðið.

Í frétt frá Hella segir að ökumaðurinn beri eftir sem áður fulla ábyrgð á því að vel takist til við að leggja bílnum og komi eitthvað upp á geti ökumaðurinn tekið fram fyrir hendurnar á kerfinu góða með því að taka aðeins í stýrið og þá hætti það um leið að vinna.