Helmingi færri nýskráningar

Bílasala heldur áfram að minnka og fyrstu sjö vikur ársins eru nýskráningar fólksbíla helmingi færri en á sama tíma á síðasta ári. Það sem af er árinu eru nýskráningar fólksbifreiða 1.123 en voru í fyrra 2.248.

Af sölunni til þessa eru bílar til almennra notkunar með 69,8% hlutdeild en bílar til ökutækjaleiga með 28,6% hlutdeild. Litlar breytingar eru í þessum efnum á milli ára að því er fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandinu.

Hvað orkugjafa áhrærir eru rafmagnsbílar með 29% hlutdeild, alls 326 bifreiðar fyrstu sjö vikur ársins. Tengiltvinnbílar koma í öðru sæti með alls 258 bíla og dísilbílar koma í þriðja sætinu með alls 233 bíla. Þar á eftir koma 197 hybrid-bílar og loks 108 bensínbílar.

Flestar nýskráningar eru í Toyota, alls 199 bílar, sem gerir um 17,2% hlutfall á markaðnum. Kia bílar koma næstir, alls 99 bílar, og Dacia í þriðja sætinu með 98 bíla. Þar á eftir koma Land Rover með 82 bíla og Hyundai í fimmta sætinu með 72 bíla.

Víst má telja að litlar breytingar verði á næstunni í þessum efnum. Páskar eru á næsta leyti, margir frídagar, og af þeim sökum mun að öllum líkindum draga enn úr sölunni.