Hert sókn kínverskra bíla til Evrópu

http://www.fib.is/myndir/UFO-Kina.jpg
Ekki er þetta Toyota RAV4, heldur Jonway UFO frá Kína.

Þýskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í bílainnflutningi frá Kína hefur tilkynnt að brátt hefjist sala á tveimur kínverskum bílum sem talsverður styrr hefur staðið um undanfarið. Auk þess verði úr miklu fleiri gerðum að velja en hingað til og söluumboðum  verði stórlega fjölgað á næstunni..

Fyrirtækið heitir China Automobile Deutschland. Hinir umdeildu bílar sem það nú hyggst byrja að selja Evrópubúum eru jepplingurinn Jonway UFO sem er svo líkur er eldri gerð Toyota RAV4 að nánast enginn munur sést í fljótu bragði. Toyota hefur gert athugasemdir við útlit UFO bílsins en þar sem Toyota einkaleyfisverndar ekki útlit bíla sinna í Evrópu hefur fyrirtækið ekki farið út í málarekstur vegna málsins. Hinn er  líka jepplingur og heitir Shuanghuan CEO og er ansi nákvæm eftirlíking af fyrstu kynslóðar BMW X5. Reyndar hefur BMW höfðað mál vegna þessa á hendur Kínverjum enda er útlit BMW bíla einkaleyfaverndað í Evrópu.

Meðal annarra Kínabíla sem sala hefst á í sumar má svo nefna sjö sæta jeppann Zhongxing Landmark en verðið á honum verður um 27 þúsund evrur. Loks verður í boði fimm sæta jepplingur af tegund sem nefnist Gonow á 20 þúsund evrur og þriggja eða fimm sæta pallbíll á 16 þúsund evrur, einnig af gerðini Gonow. Í árslok er svo væntanlegir til viðbótar ofantöldu, sendiferðabíll, smábíll og fólksbíll af millistærð.

Þessa stundina eru 76 söluumboð fyrir Kínabílana í Þýskalandi en verða í árslok orðin 125 samkvæmt frétt frá China Automobile Deutschland. Fyrirtækið einskorðar sig reyndar ekki við Þýskaland því útsölustaðir fyrir kínversku bílana eru í fleiri löndum á meginlandi Evrópu, þar á meðal Finnlandi, Luxembourg og Austurríki. Heimaborg fyrirtækisins er Munchen en  í Leipzig í gamla A. Þýskalandi var opnuð bílasýning sl. laugardag þar sem hægt er að skoða bílana. Sýningin verður opin fram til 13. apríl nk.