Hertar kröfur á hendur ungum ökumönnum

http://www.fib.is/myndir/Akstursn%E1m.jpg

Sl. miðvikudag tóku gildi breytingar á umferðarlögum. Breytingarnar lúta fyrst og fremst að aukinni áherslu á að ökumenn, ekki síst nýliðar, fari eftir umferðarlögum og –reglum.

Meðal breytinga sem sérstaklega varða nýliða eru að gildistimí bráðabirgðaökuskírteinis nýliðanna er lengdur í þrjú ár.

Þegar að því kemur að endurnýja bráðabirgðaskírteinið þurfa nýliðar eins og áður að fara í akstursmat. En til að fá að fara í akstursmat og fá síðan útgefið fullnaðarökuskírteini verður nýliði að vera með hreina ökuferilsskrá. Hann má semsé ekki hafa verið staðinn að umferðarlagabroti eða brotum sem hafa ratað sem refsipunktar inn í ökuferilsskrána undanfarna 12 mánuði.

Lögreglustjóri skal setja akstursbann á þann nýliða – handhafa bráðabirgðaskírteinis - sem fengið hefur fjóra punkta vegna umferðarlagabrota í ökuferilsskrá sína. Akstursbanni skal eingöngu beitt einu sinni á gildistíma bráðabirgðaskírteinis sem þýðir að í raun er viðkomandi sviptur þeim takmörkuðu ökuréttindum sem hann þó hafði  og verður að gera svo vel og sækja sérstakt námskeið og fara svo aftur í ökupróf.

Hugsunin að baki þessu er sú að nýliðinn hafi einfaldlega ekki náð að meðtaka að hluta það sem reynt var að kenna honum í upphaflega ökunáminu og því verði hann að gera svo vel og endurtaka hluta ökunámsins og gangast að nýju undir ökupróf.