Hinn almenni borgari vill gott og öflugt eftirlit lögreglu

Ýmsar athyglisverðar niðurstöður koma fram í könnun sem Gallup gerði fyrir Samgöngustofu um aksturshegðun almennings. Könnunin, sem birt er á vef Samgöngustofu, var mjög yfirgrips mikil en hún var unnin dagana 1.-14. nóvember á síðasta ári. Um netkönnun var um að ræða sem send var til 1.486 manns og var svarhlutfall 64,4%.

Við spurningunni hversu miklum tíma telur þú þig sem ökumann verja við akstur að meðaltali á dag í umferðinni kemur fram að 16% þeirra verja meira en klukkustund undir stýri. Þegar rýnt er enn frekar í könnunina kemur fram að 4% ökumanna hafa á síðustu sex mánuðum dottað við akstur.

Afgerandi niðurstaða er í könnuninni þegar þátttakendur eru spurðir hvort þeir hafi á síðustu sex mánuðum orðið varir við skemmdir á götum eða vegum. 79% svara spurningunni játandi, 16% stundum, og 3% sjaldan.

Um 32% ökumanna telja að eftirlit lögreglu í umferðinni hafi frekar mikil áhrif á aksturslag þeirra. 27% svöruðu spurningunni að það hefði hvorki mikil né lítil áhirf. Þegar spurt var var um aukin ökuréttindi, þ.e. réttindi til að aka leigubíl, vörubíl og eða rútu kemur fram að 18% hafa slík réttindi undir höndum.

Einar Magnús Magnússon hjá Samgöngustofu segir margt vekja athygli í þessari könnun sem stofnunin lét vinna fyrir sig.

„Það sem kemur fyrst upp í hugann er að karlmenn er miklu líklegri til að viðhafa áhættuhegðun en konur. Við höfum líka ákveðnar áhyggjur af þeim aldurshópi sem búnir eru að vera á bráðabrigðaskírteinum og eru að fá varanlegt ökuskírteini í hendurnar. Þá er eins og að fari af stað hættulegt sjálfsöryggi sem þarf greinilega að fylgjast með. Það er með afgerandi hætti hægt að segja það að hinn almenni borgari vill að það sé gott og öflugt umferðareftirlit lögreglu. Það er greinilega kallað eftir því í ákveðinni niðurstöðu í könnuninni. Við höfum látið vinna þessa könnun fyrir okkur undanfarin ár en þó eru margar nýjar spurningar í þessari könnum m.a  út af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu,“ segir Einar Magnús hjá Samgöngustofu.