„Hjól í huga!

Tökuteymi frá FÍB tók upp umferðaröryggismyndband um nýliðna helgi í miðbæ Reykjavíkur og í Mosfellsdal. Upptökurnar eru hluti af alþjóðlegu umferðaröryggisátaki sem lýtur að því að hvetja ökumenn bifreiða að sýna óvörðum hjólandi vegfarendum sérstaka aðgát og tillitssemi í umferðinni. Átakið hér á landi mun nefnast Hjól í huga. Erlendist heitir það Think Bike.

Óhætt er að segja að tökurnar hafi vakið mikla athygli og greindu Netmiðlar mjög frá þeim um helgina og leituðust sumir þeirra jafnvel við það að tengja þær „brjóstabirtingarviðburðinum“ sem fram fór á Austurvelli á laugardag. Óskandi er að boðskapur herferðarinnar Hjól í huga eigi eftir að ná jafn vel athygli fólks og fjölmiðla þegar myndbandið tekur að birtast.

Í myndbandinu verður áhersla lögð á það hversu viðkvæmt og óvarið sérstaklega  reiðhjóla- og reyndar líka mótorhjólafólk er innan um bílaumferðina og hversu mikilvægt það er að bílstjórar hafi fulla gát á umferðarhegðan sinni og hafi hugann óskiptan við aksturinn. Til að undirstrika viðkvæmni hinna hjólandi í umferðinni, er sýndur nakinn maður á reiðhjóli.

Eðlilega vakti nekt leikarans á hjólinu nokkra athygli en það undarlega gerðist að stöku fjölmiðlamenn reyndu að gera sér meiri mat úr þessu en nokkur efni voru til og höfðu jafnvel uppi getsakir um að FÍB væri að mótmæla fyrrnefndum „brjóstabirtingarviðburði.“ Það er auðvitað algerlega fráleitt.

Áður en tökur hófust hafði FÍB aflað sér allra tilskilinna leyfa fyrir tökunum hjá Reykjavíkurborg og lögreglunni. Af sumum fréttum mátti ætla að lögreglan hefði verið að svipast um eftir hinum nakta hjólamanni en ekki tekist að hafa hendur í hári hans. FÍB hefur fengið það staðfest hjá lögreglu að slíkar fréttir séu ekki frá lögreglunni komnar.