Hjólbarðar úr fíflum

Bridgestone Corporation á þátt í verkefni sem verið hefur í gangi um nokkurt skeið við landbúnaðardeild ríkisháskólans í Ohio ríki í Bandaríkjunum. Það felst í því að rækta túnfífil og nýta uppskeruna sem hráefni í gúmmíframleiðslu. Svo virðist sem þetta gangi vel upp og túnfífillinn skili hágæða gúmmí í hjólbarða.

-Við vitum af yfir 1200 jurtategundum sem mætti vinna úr gúmmí, en vandinn er að finna jurt sem inniheldur nóg mikið og gott gúmmí til að framleiðslan verði hagkvæm segir Dr Hiroshi Mouri stjórnandi rannsókna og tilrauna hjá Bridgestone í Ameríku. Hann telur að rússneskt afbrigði túnfífilsins sé einmitt sú planta sem henti til þess. Ræktunartilraunirnar munu halda áfram í sumar og samhliða þeim verður unnið að tilraunum og rannsóknum hjá Bridgestone bæði í Bandaríkjunum og Japan. Áætlað er að umfangsmiklar tilraunir á hjólbörðum framleiddum úr fíflagúmmíi geti hafist 2014.

Samhliða tilraunum með fíflana kemur Bridgestones einnig að tilraunum með ræktun og gúmmívinnslu úr runna sem nefnist guayula. Runnategund þessi vex einkum í suðvesturhluta Bandaríkjanna og norðanverðu Mexíkó.

Gúmmí er að langmestu leyti unnið, eins og alltaf áður, úr safa gúmmítrésins sem líka nefnist Hevea-tré. Það er ekki meira en svo að núverandi ræktun gúmmítrjánna og vinnsla safans úr þeim dugi til að anna eftirspurn hjólbarðaiðnaðarins í heiminum. Eftirspurnin fer sívaxandi eftir því sem þriðja heims ríkin bílvæðast meir og meir. Því liggur stöðugt meir á því að finna ný hráefni í gúmmí og bæta gúmmíið þannig að það það verði endurnýtanlegra en hingað tll. Markmið Bridgestone er að þróa gúmmí sem er endurnýtanlegt að fullu eða 100% og að hráefnisframleiðslan verði algerlega sjálfbær.