Hjólbarðar úr túnfíflum

Þrír sameindalíffræðingar í Þýskalandi hafa hlotið hin eftirsóttu Joseph von Fraunhofer vísinda- og nýsköpunarverðlaun fyrir hjólbarðagúmmí sem framleitt er úr rótum túnfífla. Þýski hjólbarðaframleiðandinn Continental hefur búið til hjólbarða úr þessu gúmmíi. Þeim hefur verið reynsluekið um nokkurt skeið undir bílum og þykja lofa góðu. Talið er að þetta gúmmí unnið úr rótum túnfífla geti orðið upphafið að sjálfbærri gúmmíframleiðslu sem auk þess verði mun umhverfismildari en nútíma gúmmíframleiðsla.

Verðlaunahafarnir sem heita Dirk Prüfer, Christian Schulze Gronover og Carla Recker hafa unnið að gúmmíverkefninu um nokkurt skeið í samvinnu við Continental. Markmiðið var frá upphafi það að vinna gúmmí á hagkvæman hátt úr rótum túnfífla. Túnfífill er harðger planta sem vex og þrífst ágætlega á norðlægum slóðum á ræktarlandi sem alls ekki hentar til matjurtaræktunar. Þá er það mjög hagkvæmt að rækta gúmmíið sem næst þeim verksmiðjum sem framleiða t.d. hjólbarða og annan iðnvarning úr gúmmíinun í stað þess að tappa hráefninu af trjám í hitabeltinu og flytja það síðan um hálfan hnöttinn á framleiðslustað.

Túnfífillinn er kannski ekki þekktur fyrir að vera mjög „gúmmírík“ planta en vísindafólkið sagði þegar það tók við verðlaununum á dögunum, að þeim hefði tekist að finna og skilja þann erfðavísi plöntunnar sem stýrir magni gúmmíframleiðslu hennar. Eftir það hefði leiðin verið all greið fram á við.