Hjólbarðaverðkönnun FÍB apríl 2014

FÍB hefur kannað verð á sumarhjólbörðum. Í könnuninni var spurt um verð á fjórum hjólbörðum eða einum hjólbarðagangi undir bílinn. Kannað var verð á einum dekkjagangi undir bílinn þar sem söluaðilar hafa gefið í skyn að neytendur kaupi oftast fjögur dekk og það geti verið hagstæðara að kaupa einn gang frekar en einn hjólbarða.  Könnunin var gerð í vikunni sem nú er að líða (15. viku) og fór þannig fram að haft var símasamband við söluaðila hjólbarða um allt land og þeim síðan sendar fyrirspurnir. Spurt var um verð á nýjum hjólbörðum af tveimur algengum stærðum hjólbarða fyrir fólksbifreiðar og jeppa/jepplinga. Beðið var annarsvegar um verð á sumarhjólbörðum fyrir fólksbíla, stærð 195 / 65 R15  og hins vegar verð sumarhjólbarða fyrir jeppa/jepplinga af stærð 235 / 65 R17.  Í kjölfar þessarar könnunar fór starfsmaður félagsins í heimsókn til allra stærri sölu- og innflutningsaðila á höfuðborgarsvæðinu til að sannreyna uppgefnar tölur.

Þar sem könnun þessi er einungis verðkönnun felst engin afstaða til gæða hjólbarðanna að öðru leyti en því sem felst í ESB-merkingum hjólbarðanna þar sem það á við. Allir nýir fólksbílahjólbarðar sem til sölu eru á evrópska efnahagssvæðinu eiga að vera með þessum ESB merkingum til að neytendur geti áttað síg á því í sjónhendingu hversu hávær hjólbarðinn er í akstri, hversu vel hann ryður frá sér vatni og hversu létt hann rennur á vegi og þannig séð hvort hann krefst mikils eldsneytis. Nánar um ESB-merkingar hér:  http://www.fib.is/?ID=2199 

http://www.fib.is/myndir/dekkesb.jpg

Sumarhjólbarðar þurfa umfram vetrarhjólbarða að vera slitþolnir og þola hraðan akstur á sumarheitum og þurrum vegum langtímum saman en þeir þurfa líka að vera mynstraðir þannig að þeir hrindi vel vatni frá sér og haldi veggripi vel í bleytunni. En það eru sérstaklega góðir aksturseiginleikar í bleytunni sem framleiðendur ódýru hjólbarðanna ráða illa við meðan flestir vestrænu framleiðendurnir hafa fyrir löngu náð góðum tökum á þessu mikilvæga atriði.

Hér á Íslandi eru rigningar tíðar og oft mikil bleyta á vegum sem er stórhættuleg þar sem hjólför hafa myndast í slitlagið. Góðir eiginleikar hjólbarða í bleytu eru því lífsnauðsynlegir við íslenskar aðstæður. Sem dæmi um hversu misjafnir hjólbarðar geta verið að þessu leyti er að hemlunarvegalengd sama bíls á austrænum dekkjagangi í bleytu er miklu lengri en ef hann er á dekkjagangi af góðri tegund.

Marktæk svör bárust frá 21 söluaðilum um verð á sumarhjólbörðum. Verð í könnuninni eru listaverð og án afsláttar en margir söluaðilar bjóða margvíslega afsætti. FÍB er með góða afslætti hjá mörgum söluaðilum. Neytendur eru hvattir til að spyrja um afslátt.

Það vekur athygli að sumir söluaðilar og innflytjendur hjólbarða virðast meðvitað eða ómeðvitað ekki þekkja til tilskipunar ESB um dekkjamerkingar sem tók gildi hér á landi 1 nóvember 2012. Samkvæmt reglunum er seljendum hjólbarða skylt hafa upplýsingar um samræmdar gæðaprófanir hjólbarða á öllum hjólbörðum sem innfluttir hafa verið eftir 1. nóvember 2012.  Merkingarnar eiga að vera límdar á hjólbarðana og gefa staðlaðar upplýsingar um sparneytni og grip í bleytu með mismunandi bókstöfum og upplýsingar um veghljóð í desibelum (dB).  Merkingarnar gera kaupandanum kleift að bera saman gæði, kosti og öryggi hjólbarða.

Neytendastofa fer með eftirlit á tilskipun um dekkjamerkingar.

FÍB verðkönnun á 195 / 65 R15 - smelltu hér

FÍB verðkönnun á  235 / 65 R17 - smelltu hér

Sjá einnig nýja verðkönnun á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu frá verðlagseftirliti ASÍ