Hjólbarði sem aldrei springur

Bridgestone vinnur nú að hjólbarða sem í raun einskonar burðargrind eða pílárar úr gerviefni sem festir eru við einskonar felgu. Utan um burðargrindina er svo slitbani úr gúmmíi. Ekkert loft er í þessu dekki heldur er burðurinn og burðarþolið í sjálfu fléttuverkinu eða pílárunum. Allt er þetta á tilraunastigi en nokkrar frumgerðir eru í prófun undir smábílum. Bridgestone sýndi þetta hugmyndardekk á bílasýningunni í Tokyo nýlega.

Þetta loftlausa tilraunadekk er sem áður segir á algeru tilraunastigi og enn er burðarþolið ekki meira en svo að hjólið telst ekki nothæft  undir nema minnstu og léttustu bíla.

En það sem verið er að sækjast eftir er einhverskonar hjólbarðar sem eru jafngóðir en miklu endurvinnanlegri en hefðbundnir hjólbarðar. Burðarefnið er í þeim anda og úr einhverskonar plastefni sem er endurvinnanlegt að mestu leyti.

Fyrir nokkrum árum var greint frá því í frétt hér á vefnum að Michelin væri að gera tilraunir með ekki ósvipaða hjólbarða. Þær tilraunir báru ekki árangur og hjólin þóttu ekki hæf til fjöldaframleiðslu.