Hleðslustöðvar fyrir rafbíla í Danmörku

Friðrik krónprins Dana gangsetti í lok síðustu viku 50 hleðslustöðvar fyrir rafbíla í eigu fyrirtækis sem nefnist Clever en hét áður Choosev (Veldu rafbíl). Krónprinsinn kom, á táknrænan hátt, til viðburðarins akandi á rafbíl sínum. Bíllinn er af gerðinni Fisker Karma með innbyggðri rafstöð.

Þessar nýju hleðslutöðvar Clever eru um alla Danmörku og þannig staðsettar að með útsjónarsemi má komast nokkurnveginn allra sinna ferða um Danmörku á hreinum rafbíl (án innbyggðrar rafstöðvar). Hraðhleðslubúnaður er á 22 þessara stöðva.

Verðið á raforkunni er sannarlega ekki gefins á stöðvunum. Verð hverrar kílóWattstundar er frá 81,75 til 114,45 ísl. kr. Þeir sem eru í áskrift hjá félaginu  fá kílóWattstundina á 81,75 ísl. krónur hvort heldur sem þeir hlaða úr venjulegum tengli eða hraðhleðslutengli. Þeir sem ekki eru áskrifendur þurfa hins vegar að greiða 103, 50 kr. fyrir kílóWattstundina frá venjulegum tengli en 114,45 kr. úr hraðhleðslutengli. Til samanburðar þá kostar kílóWattstundin á rafbílinn aðeins 45,70 sé hann hlaðinn heimavið.

Úti á hleðslustöðvunum kostar það þannig í kring um 2.100 ísl kr. að fullhlaða rafbílinn sé maður ekki áskrifandi. Fyrir áskrifenda kostar það ca. 1.525 kr.  Alla jafna dugar hleðslan til 120 km aksturs.

Áskrifendaverðið á raforkunni er því mjög áþekkt verði dísilolíu á bíl sem eyðir 5 lítrum á hundraðið. Rafbíllinn kemst alla jafna 120 kílómetra á hleðslunni. Sú olía sem þarf til að koma umræddum dísilbíl 120 kílómetra vegalengd kostar um 1.570 ísl. kr.

Clever er reyndar alls ekki eina félagið sem hefur verið að koma upp neti hleðslustöðva fyrir rafbíla um alla Danmörku að undanförnu. Fyrirtækið Better Place, sem á sér rætur í Ísrael, hefur komið upp um 80 stöðvum um allt landið og er að fjölga stöðvum sínum á Kaupmannahafnarsvæðinu úr 25 í 50. Kerfið er hins vegar enn langt frá því að virka hjá Better Place ennþá.