Hljóðgjafar fyrir rafbíla

Danskt fyrirtæki sem heitir ECTunes vinnur að því að skapa hljóð fyrir rafbíla. Þar sem rafbílar eru nánast hljóðlausir í rólegri borgarumferðinni geta þeir reynst varasamir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur svo ekki sé talað um þá sem blindir eru eða verulega sjónskertir.

Það er út af fyrir sig kostur að bílar séu hljóðlátir og að umferðarniður eða umferðargnýr sé sem minnstur. En ef umferðin allt í einu verður mjög hljóðlát þá verður erfiðara að heyra hvort og hversu nærri aðvífandi bíll er hinum fótgangandi. Þannig getur hljóðleysið allt í einu orðið að hindrun eða þröskuldi sem hægir á útbreiðslu umhverfismildustu bílanna. Vandinn er því sá að búa til einhverskonar hljóð sem berst vel án þess að vera truflandi eða þrúgandi á einhvern hátt. Helst þarf hljóðið líka að vera á einhvern hátt einkennandi fyrir rafbílana. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir blinda að þeir þekki hljóð farartækja í umferðinni í kring og geti greint af því hverskonar farartæki er í nánd við þá.

Danska fyrirtækið ECTunes vinnur einmitt að þessu, en fyrirtækið hefur sérhæft sig í því að þróa hljóðkerfi fyrir rafknúin farartæki og þróað slík kerfi m.a. fyrir vörulyftara. Það vinnur nú að hljóðkerfum fyrir rafbílana í samvinnu við hönnunarskólann í Kolding á Jótlandi, en skólinn hefur fengið hóp blindra til að prófa og þróa áfram ýmsar tegundir hljóða sem auðkenna eiga rafbílana og gera þá þannig öruggari fyrir óvörðu vegfarendurna.

Það sem helst er leitast við í þesssari vinnu er að búa til hljóð sem verður sérkennandi fyrir rafbíla. Það má ekki líkjast þeim hljóðum sem hefðbundnir bílar gefa frá sér. Eðli þessara hljóða verður að vera það að þau séu lágvær en þó þannig að þau heyrist í gegn um annan umferðarskarkala, skýrt heyrist úr hvað átt þau berast, hversu langt rafbíllinn er í burtu og hvort hann sé að auka hraðann eða draga úr honum.

Sölu- og markaðsstjóri ECTunes segir við fréttavef FDM í Danmörku að þessi vinna hafi skilað miklum árangri. Til sé orðinn einskonar hljóðkjarni sem nú sé verið að kynna fyrir framleiðendum rafbíla um allan heim. Þá séu 15 þýsk og dönsk fyrirtæki þegar að prófa rafbílahljóðkerfi frá ESTunes en markmið fyrirtækisins sé að selja hljóðgjafa í alla rafbíla sem framleiddir verða í heiminum.