Hlöðubíll frá 1940

Af og til fer af því sögum að gamlir bílar sem gleymst hafa í hlöðum eða útihúsum sveitabæja finnist í góðu ásigkomulagi. Sá bíll sem hér birtast myndir af, gleymdist kannski aldrei en hann var geymdur um áratugi á góðum stað undir yfirbreiðslu í þurri hlöðu vestur í Idaho í Bandaríkjunum þar sem hvorki sól, regn, snjókoma né vindar náðu að leika um hann. Vissulega eru dæmi um bíla hér á landi sem geymst hafa lengi í hlöðum hingað og þangað um landið, en trúlega eru ekki miklar líkur á að dýrgripur á við þennan bíl eigi eftir að finnast hér á landi.

http://www.fib.is/myndir/Dodge-2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Dodge-3.jpg
http://www.fib.is/myndir/Dodge-4.jpg

Bíllinn er blár Dodge árgerð 1940. Dýralæknirinn í sveitaþorpinu Horseshoe Bend í Idaho keypti bílinn nýjan og fór á honum milli bæja í sveitinni til að sinna útköllum. Þess í milli geymdi hann bílinn í hlöðunni sinni og þar var hann þegar læknirinn féll frá árið 1948. Aðstandendur settu bílinn þá á búkka og gengu vel frá honum til geymslu þar sem ekki þótti taka því að selja hann. Og þar var bíllinn í 55 ár eða þar til hann var loks seldur til S. Kaliforníu. Nýi eigandinn hefur síðan gætt hans vel og ekið lítið - því að  á allri 72 ára langri ævi sinni hefur bílnum einungis verið ekið  innan við 43 þúsund mílur.  Bíllinn er sagður upprunalegur að öllu leyti því að að aldrei hefur þurft að gera hann upp, eða yfirleitt að gera neitt við hann umfram eðlilegt viðhald og smurningu.

Aldrei hefur þurft að rétta hann eða sprauta og ekkert ryð fyrirfinnst í honum og sárafáar beyglur. En lakkið á honum er tekið að bera þess nokkur merki að vera orðið 72 ára. Það er orðið ansi þunnt á köflum, sérstaklega ofantil á frambrettum og víðar.

Dodge frá 1940 er harla ólíkur nútímabílum þótt miðað við bíla fjórða áratugarins sé hann nokkuð nýtískulegur. Þannig eru rúðuþurrkurnar rafdrifnar og tveggja hraða, en þurrkurnar voru yfirleitt knúnar soglofti frá innsogsgrein vélarinnar á þessum tíma. Vökvahemlar eru í bílnum eins og í nútímabílum en þó ekkert hjálparátak á þeim frá soggreininni eins og nú er lang algengast. Gírkassinn er þriggja gíra og meira að segja samhæfður sem ekki var algengt. 

Vélin er sex strokka línuvél, 87 hö. Hún er gangsett með því að stíga á heljarmikinn hnapp í gólfinu ofan við bensíngjöfina. Hún er sögð„detta“ í gang um leið og mala eins og köttur og vinna ágætlega, í það minnsta miðað við bíla þessa horfna tíma. Í bílnum er lampaútvarpstæki af gerðinni Philco sem smástund er að hitna þegar kveikt hefur verið á því. Miðstöðin er undir mælaborðinu hægra megin. Hún er eiginlega járnkassi. Inni í honum er miðstöðvarelement og vifta sem blæs heitu loftinu í gegnum elementið og út í farþegarýmið. Á miðstöðvarkassanum undir mælaborðinu eru tveir stjórntakkar, annar er til að kveikja á blásaranum, en hinn til að stilla rennslið á heitu kælivatninu frá vélinni um miðstöðvarelementið.