Hlöðum fjölgar á Austurlandi

Stöðvarfjörður hefur nú bæst í hóp staða á landinu þar sem hraðhleðslu fyrir rafbílaeigendur er að finna. Þá eru hlöður okkar orðnar 26 talsins. Axel Rúnar Eyþórsson, starfsmaður Orku náttúrunnar og Stefán Sigurðsson, rafbílaeigandi opnuðu hlöðuna.

Orka náttúrunnar hefur verið leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum frá árinu 2014. Þá voru fyrstu hlöður fyrirtækisins með hraðhleðslum opnaðar. Þeim hefur fjölgað síðan og aldrei eins ört og nú í ár.

Orka náttúrunnar hefur einsett sér að opna allt landið fyrir umferð rafbíla og setja upp hlöður meðfram hringveginum. Þetta net mun þéttast jafnt og þétt næstu vikur og mánuði með því að hlöður verða opnaðar á næstunni í Nesjum við Hornafjörð, við Mývatn og á hálendinu milli Norður- og Austurlands.

Rafbílaeigendur eru minntir á að sækja um ON lykilinn að léttari samgöngum fyrir 1. febrúar sem þeir þurfa til að njóta hraðhleðslu okkar.  Viðskiptavinir sem hafa fengið sendan lykilinn heim eru hvattir til að virkja hann fyrr en síðar.