Hlutfall negldra hjólbarða 40% í mars í Reykjavík

Hlutfall negldra dekkja var talið í Reykjavík miðvikudaginn 9. mars. Hlutfallið skiptist þannig að 40% ökutækja var á negldum dekkjum og 60% var á öðrum dekkjum. 

Hlutfall negldra dekkja er örlítið lægra en á sama tíma í fyrra þegar 41,4% ökutækja var á negldum dekkjum. Fyrir tveimur árum var hlutfallið 40,9% og því hefur það lækkað örlítið síðan þá en betur má ef duga skal. 

Fram kom í fyrirlestri um um áhrif nagladekkja á loftgæði og gatnaslit, að nagladekk er ráðandi þáttur í svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu. 

„Bíll á nöglum mengar allt að 40 sinnum meira en bíll sem ekki er á nöglum," sagði Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Staðreyndin er að nagladekk auka kostnað á viðhaldi gatna í Reykjavík með því að slíta malbikið margfalt hraðar en önnur dekk, þau auka eldsneytiskostnað bifreiða, þau valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum með mengun. Dýpt mynsturs í hjólbörðum hefur til að mynda áhrif á hversu gott grip þeirra er. Aðalatriðið er að vera á góðum vetrardekkjum og aka eftir aðstæðum og fara varlega.

Hlutfall negldra dekkja verður næst kannað 20. apríl en ekki er leyfilegt að aka á nöglum eftir 15. apríl ár hvert.