Hlutfallslega meiri hækkun á minna mengandi ökutæki

Fjármála- og efnahagsráðherra lagði á dögunum fram frumvarp um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, þar á meðal skattaívilnanir á rafmagns- og vetnisbifreiðar. Í ákvæði til bráðabirgða í lögum um virðisaukaskatt er kveðið á um sérstaka virðisaukaskattsívilnun vegna innflutnings og skattskyldrar sölu m.a. á rafmagns- og vetnisbifreiðum. Umræðan um frumvarpið fer fram þessa dagana á alþingi. Ef frumvarp um fjáraukalög fær að standa óbreytt munu nýir bílar sem menga meira kosta minna um áramót, en umhverfisvænni bílar hækka í verði.

Þær breytingar sem eru í farvatninu með fjárlagafrumvarpi næsta árs eru m.a. lagt upp með breytingar á bifreiðagjaldi en það fer úr grunngjaldi 7.540 kr sem greitt er tvisvar á ári í 15.080 krónur. Einnig er verið að hækka svo krónutöluna á hvert umfram gramm um tæp 8%. Það sem bílgreinin á erfiðara með að skilja eru breytingar og vörugjaldahækkun á rafbíla við innflutning og lækkun virðisaukaskattsívilnunar nú um áramót.

Tollyfirvöldum hefur verið heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt af rafmagns- eða vetnisbifreið að fjárhæð 1.560.000 kr og það mun lækka um áramót niður í 1.320.000 á hvern bíl. Þetta leiðir til hækkunar upp á 240.000 krónur, í það minnsta. Skattaívilnunin verður hins vegar út árið 2023 sem er mjög jákvætt.

Búið að boða 5% lágmarks vörugjald á ökutæki

Að auki er búið að boða 5% lágmarks vörugjald á ökutæki sem er að hækka vörugjald á rafbíla um 150 – 350 þúsund kónur. Þegar allt er tekið saman, vaskur og vörugjöld á t.d. rafbíl sem kostar í dag um 6 milljónir króna er hækkun á slíkum bíl um 6-700 þúsund. Einnig má búast við hækkun á innkaupsverði ökutækja vegna íhlutaskorts á heimsvísu og gengislækkunar krónunar sem kemur ofan á þessa tölu. 

,,Það sem kemur okkur í bílgreininni hvað mest á óvart er að með þeim breytingum sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu er að það er hlutfallslega meiri hækkun á minna mengandi ökutæki, það er rafbíla, tengiltvinn bíla og fólksbíla sem hafa lágt CO2 gildi en sú hækkun sem mun eiga sér stað á stærri jeppa með hátt CO2 gildi. Það er því verið að hækka hlutfallslega meira umhverfisvænni fólksbíla en bensín og díselknúna stærri jeppa,“ segir María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Afar öfugsnúin aðgerð

María Jóna segir að svo dæmi sé tekið kostar bensínbíll með mjög lítlu batterí í dag rétt um 5 milljónir að hækka um 4,5% á meðan 100% rafbíll af sömu gerðar að hækka um tæplega 8%. Díselknúinn jeppi sem mengar töluvert meira hækkar aðeins um 2,3% samkvæmt áformum fjárlagafrumvarpsins.  Þetta er afar öfugsnúin aðgerð og teljum við að muni hægja á sölu rafbíla og auka sölu bensín- og díselbíla.  Það er ekki í takti við þá vegferð sem stjórnvöld hafa verið að hvetja til. Á sama tíma má benda á að íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig á alþjóðavettvangi til að draga úr kolefnislosun.

Ísland vill skipa sér í fremstu röð í baráttunni gegn lofslagsvánni

Í stjórnarsáttmála kemur fram að Ísland vilji skipa sér í fremstu röð í baráttunni gegn lofslagsvánni og uppfylla ákvæði Parísarasamningsins. Stjórnvöld hafa því sett sér sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005. Einnig það markmið að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti.

Samkvæmt niðurstöðu verkefnastjórnar aðgerðaráætlunar stjórnvalda í lofslagsmálum liggja mest tækifæri í samdrætti losunar gróðurhúsalofttegunda í vegasamgöngum. Því eru hröð orkuskipti í vegasamgöngum lykillinn að því að Ísland nái markmiðum sínum.

,,Bílgreinin hefur verið undirbúin undir hærri álögur á bensín og díselbíla nú um nokkurt skeið en kröfur á bílafraleiðendur eru alltaf að verða stífari þegar kemur að mengun frá Evrópusambandinu. Því hafa þeir verið knúnir til mjög örra tækniframfara og  það eru fáar greinar með jafnhraða tæknibreytingu og þá sem hefur átt sér stað í bílgreininni síðastliðin 10 ár,“ segir María Jóna.

Hljóð og mynd fara ekki saman

María Jóna bendir einnig á að bílgreinin gerir sér grein fyrir að ríkið þarf á tekjum að halda en það sem við erum að benda á er að mikilvægt er að tekjurnar eru lagðar á í samræmi við þau markmið sem verið er að stefna að. Við höfum komið okkar tillögu til skila og teljum okkur hafa reynt að gera allt sem við getum til að varpa ljósi stjórnmálamanna á hve öfugsnúið þetta er og að hljóð og mynd fara ekki saman.

,,Við höfum heyrt að þessi uppsetning á gjöldum frá fjármálaráðuneytinu sé einnig tilkomin til að halda sanngirni við landsbyggðina þegar kemur að orkuskiptum. Ég tók því út tölur til að skoða þróunina á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar þegar kemur á kaupum einstaklinga á fólksbílum. Tók ég tölur frá 2019 til dagsins í dag og sjáum við að einstaklingar eru að kaupa rafmagnsbíla í 39% tilfella á höfuðborgarsvæðinu á móti 32% tilfella á landsbyggðinni. Svipað hlutfall er við kaup á tengiltvinnbílum eða 24% á móti 22%. Kaup bensínbíla er nokkuð jafnt eða 12% á móti 13% höfuðborginni í vil og díselbílar eru keyptir í 11% tilfella hér á höfuðborgarsvæðinu á móti 18% á landsbyggðinni.“

María Jóna segir að það virðist ekki vera hindrun hjá einstaklingum að kaupa nýorkubíla á landsbyggðinni. Ég held að það séu nógu mörg ljón í veginum fyrir okkur til að uppfylla þessi metnaðarfullu umhverfismarkmið stjórnvalda og því skil ég ekki hvers vegna við erum að setja enn eitt ljónið á veginn til að berjast við þegar það er óþarfi.

,,Það er mikilvægt að ráðuneyti eins og fjármálaráðuneytið og umhverfis, -orku og lofslagsráðuneytið vinni saman en ekki á móti hvort öðru eins og við erum að sjá með tillögum þessa frumvarps,“ segir María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.