Hofsvallagötufundurinn í Hagaskóla

Þunga undiröldu gegn breytingunum á Hofsvallagötu mátti merkja á fjölmennum fundi sem fór fram í Hagaskóla í gær. Reykjavíkurborg boðaði til fundarins og höfðu borgarstarfsmenn framsögu um breytingarnar á götunni. Ekki hafði verið gert ráð fyrir framsögu að hálfu þeirra sem gagnrýnt hafa breytingarnar, heldur einungis fyrir stuttum fyrirspurnum úr sal.

Kristinn Fannar Pálsson verkfræðingur og íbúi við húss á horni Hagamels og Hofsvallagötu og talsmaður gagnrýnenda breytinganna óskaði þá eftir því að fá að skýra sitt mál úr ræðustóli og heimilaði fundarstjóri honum það en þó ekki fyrr en að fundarmenn höfðu látið í ljós eindreginn vilja sinn til þess. Kristinn afhenti síðan fulltrúum borgarinnar undirskriftir 661 íbúa við og í næsta nágrenni Hofsvallagötu sem mótmælt hafa framkvæmdunum á götunni.

Í framsögu sinni baðst Ólöf Örvarsdóttir stjórnandi umhverfis- og skipulagssviðs afsökunar á litlu samráði við íbúa hverfisins um breytingarnar. Hún óskaði síðan eftir samráði við íbúa um málið og um hugsanlegar endurbætur og breytingar á þeim framkvæmdum sem þegar hafa verið gerðar. Einn fundargesta kallaði undir lok fundarins eftir atkvæðagreiðslu um að breytingarnar yrðu alfarið afturkallaðar og gatan hreinsuð. Þá var fundi slitið og engin slík atkvæðagreiðsla fór fram.