Hola – nýtt app FÍB

FÍB hefur fengið Björn Elíeser Jónsson tölvunarfræðing til að smíða farsímaforrit eða app sem myndar holur í yfirborð vega og gatna og sendir myndina ásamt nákvæmri staðsetningu í tölvupósti til FÍB sem kemur síðan upplýsingunum á framfæri við veghaldara. Appið styrkir stöðu þeirra sem orðið hafa fyrir tjóni að fá tjón sitt bætt. Hér er hægt að nálgast Holu-appið fyrir Android í Play store.  Iphone útgáfa af appinu er væntanlegt fljótlega. Ath. Leitarorðið fyrir appið er "hola fib".   

Vegir og götur eru víða, a.m.k. annað árið í röð, að koma mjög illa undan vetri og óvenju mörg ökutæki hafa orðið fyrir tjóni við það að fara ofan í holur og slæmar vegaskemmdir. Ástæðan er fyrst og fremst sú að viðhald vega og gatna hefur verið í skötulíki um árabil. Í ofanálag hefur gengið erfiðlega fyrir ökutækjaeigiendur að fá tjón sín bætt. Veghaldarar (svetarfélög og Vegagerð) hafa skýlt sér með því að þeim hafi ekki verið kunnugt um viðkomandi vegaskemmdir og því ekki getað brugðist við og merkt hættustaðinn og lagfært hann.

 „Fæstir þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni hafa fengið það bætt og eins og staðan er núna þá er virkilega þörf fyrir að koma upplýsingum um vega- og gatnaskemmdir á framfæri við veghaldara. Appið er þannig bæði öryggismál og það varðar eigur borgaranna,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB.