Holur hafa myndast víða á suður- og vesturlandi – ökumenn aki með gát

Vegagerðin beinir því til ökumanna að víða á Suður- og Vesturlandi eru holur að myndast í vegum og eru ökumenn beðnir að aka með gát á meðan unnið er að viðhaldi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við því að víða hafi myndast hættulegar holur á stofn og tengibrautum en að sögn lögreglu hafa tugir bíla skemmst af völdum holanna. Í færslu lögreglunnar er biðlað til ökumanna að fylgjast vel með yfirborði gatna og aka varlega þar sem unnið er að viðgerðum.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að slæmir vegkaflar eru merktir sérstaklega, jafn hratt og við verðum komist en nú eru þrír flokkar Vegagerðarmanna að sinna því að fylla til bráðabirgða upp þær vegskemmdir sem hafa myndast að undanförnu. En þær halda áfram að myndast í þessu tíðarfari sem nú er. Viðgerðir til framtíðar verður ekki hægt að fara í fyrr en í vor og sumar og þá með mun varanlegra viðhaldi.

Verði vegfarandi fyrir tjóni á ökutæki er nauðsynlegt að fara á heimasíðu Vegagerðarinnar og fylla þar út tjónstilkynningu með rafrænum hætti: https://www.vegagerdin.is/thjonusta/tilkynning-um-tjon/. FÍB er með forritið www.vegbot.is þar sem fólk getur skráð holu eða skemmdir í vegi. Sé það gert með snjalltæki á staðnum fylgir staðsetning tilkynningunni. Forritið veit á hverra forræði allar götur og vegir á landinu eru og fer hver tilkynning til rétts veghaldara.

Þá kemur fram að rétt séað hafa í huga að þegar viðgerð er framkvæmd á vegskemmd er gert við hana með því að fylla upp í hana með sérstöku fyllingarefni svo hún falli vel saman við vegskemmdina og komi þannig í veg fyrir frekara tjón. Í slæmu veðurfari og kulda getur bleyta komist í undirlag vegar og þrýstingur myndast á viðgerða vegskemmd sem getur þá einnig farið illa.