Honda Accord vinsælastur í USA

http://www.fib.is/myndir/AccordUSA_litil.jpg
Honda Accord Bandaríkjaútgáfa, árgerð 2008.

Hávaðalítið og án sérstakra auglýsingaherferða hefur Honda Accord stöðugt bætt sig og er nú orðinn mest seldi fólksbillinn í Bandaríkjunum. Toyota Camry hefur um langt árabil trónað á toppnum sem mest seldi fólksbíllinn þar, en nú hefur Hondan tekið þann sess og ekki aðeins er hún nú mest seldi fólksbíllinn í Bandaríkjunum, heldur mest seldi bíllinn yfirleitt. Vinsælustu pallbílarnir í Bandaríkjunum hafa oftast selst meir en söluhæstu fólksbílarnir en nú hefur Hondan skotist líka fram úr hinum vinsæla Ford F-150.

Honda Accord kom fyrst fram á bandarískan bílamarkað árið 1976 og fékk þá strax góðar móttökur en hefur verið að vinna á jafnt og þétt. Bíllinn hefur verið framleiddur í Bandaríkjunum síðan 1982.  Rétt er að taka fram til að útiloka allan misskilning að hin bandaríska Honda Accord er alls ekki sami bíll og sú sem er á Evrópumarkaði. Hinn bandaríski Honda Accord er alls ekki í boði í Evrópu yfirleitt. En hinn evrópski Accord er þó reyndar í boði í Bandaríkjunum en undir öðru nafni; Honda Acura TSX. http://www.fib.is/myndir/AccordUSA_Stor.jpg

Hið stöðugt hækkandi eldsneytisverð hefur komið hart niðri á sölu bensínþyrstra pallbíla í Bandaríkjunum. Sala á þeim hefur dregist saman og fólksbílar, ekki síst nýjasti Honda Accordinn sem er af áttundu kynslóð, hefur nú sem fyrr segir, sigið fram úr þeim. Í marsmánuði sl. seldust alls 36.000 Accord bílar, eða um 1.100 fleiri en seldust af Ford F-150 pallbílnum. Toyota Camry varð svo í þriðja sæti, en af honum seldust 31.000 bílar I marsmánuði.